„Okkur hefur bara gengið rosalega vel og liðið leikið afar góðan handbolta,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari U19 ára landsliðs karla í handknattleik þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í kvöld. Íslenska liðið hefur unnið fjóra af fimm leikjum á Opna Evrópumótinu í Gautaborg og mætir liði Króatíu í undanúrslitaleik klukkan 17 á morgun.
Þátttakan í Opna Evrópumótinu er liður í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu sem hefst í Kaíró 4. ágúst.
Fjórir sigrar – eitt tap
Sigrar á Egyptum, Pólverjum, Eistlendingum og Litáum og naumt tap fyrir Spánverjum í hörkuleik er niðurstaðan eftir riðlakeppnina sem lauk í dag. „Liðið lék vel gegn Spáni en því miður varð nýtingin okkur að falli í jöfnum leik,“ sagði Heimir.
Spánverjar unnu allar viðureignir sínar í riðlakeppninni og mæta Svíum í hinni viðureign undanúrslita. Sænska landsliðið var í öðru sæti í B-riðli á eftir Króötum sem eins og Spánverjar, lögðu alla mótherja sína.


Leikið í Scandinavium
Eftir að hafa leikið 2×20 mínútna leiki þá lengist leiktíminn í tveimur síðustu leikjunum þegar keppt verður um verðlaunin. Leikir taka þá yfir 2×30 mínútur eins og hefðbundið er. Auk þess færist keppnin yfir í Scandinavium-íþróttahöllina veglegu í Gautaborg á föstudaginn þegar leikið verður til verðlauna en ljóst er að íslenska liðið leikur annað hvort um gullið eða bronsið á mótinu.
Gamli Balkanskólinn
„Króatarnir voru mjög öflugir. Þeir eru góðir maður á mann, fara vel með boltann og eru skiplagðir, jafnt í vörn sem sókn. Þetta er bara gamli Balkanskólinn,“ sagði Heimir léttur í bragði.
Í okkar höndum
„Við mætum hörkuliði en ég tel okkur eiga möguleika. Öllu máli skiptir að við náum upp öflugum varnarleik og markvörslu. Takist það þá eigum við möguleikana. Þetta verður í okkar höndum,“ sagði Heimir sem er mjög ánægðir með lið sitt en töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum sem til stóð í vor að tefla fram. Meiðsli og fleira hafa sett strik í reikninginn.
Fjölmennur og góður hópur
„Það er bara frábært að vera með strákunum. Þeir eru vel einbeittir við það sem þeir eru að gera. Inni í þennan hóp sem er hér úti komu strákar á síðustu stundu. Þeir hafa fallið vel inn í hópinn, ekki bara innanvallar heldur einnig utan. Það er mjög lofandi árgangar í kringum þetta lið og hópurinn er fjölmennur. Breiddin eru svo góð að við getum nánast stillt upp tveimur liðum ef allir væri klárir í slaginn,“ sagði Heimir Ríkarðsson sem þjálfar U19 ára landsliðið ásamt Maksim Abkachev.
Viðureign Íslands og Króatíu hefst klukkan 17 á morgun að íslenskum tíma. Á eftir mætast Svíþjóð og Spánn. Leikið verður um sæti á föstudaginn. Hægt er að fylgjast með útsendingum á ehftv.com.