Einn leikur verður í Olísdeild karla í dag og þrjár viðureignir verða leiddar til lykta í Olísdeild kvenna auk þess sem fjórir leikir eru á dagskrá í Grill 66-deild karla og kvenna í dag. Áhorfendum verður ekki leyft að koma á leikina í dag né á morgun samkvæmt tilkynningu sem HSÍ gaf út í hádeginu.
Annarri umferð Olísdeildar karla lýkur í Schenkerhöllinni síðdegis þegar ÍBV kemur í heimsókn og mætir Haukum. Flautað verður til leiks klukkan 17.30. Það er alltaf líf og fjör og fast tekist á þegar þessi lið mætast og gildir þá einu hvort það er í upphafi Íslandsmóts eða í lokin. Haukar unnu nauman sigur á nýliðum Gróttu í fyrstu umferðinni meðan ÍBV vann ÍR með sjö marka mun í Austurbergi.
Lið KA/Þórs og Stjörnunnar ríða á vaðið í Olísdeild kvenna í dag í KA-heimilinu klukkan 14.30. KA/Þór gerði jafntefli við ÍBV í Eyjum fyrir viku en Stjarnan lagði FH örugglega á heimavelli í upphafsleik Olísdeildar þetta tímabilið á föstudaginn fyrir viku.
Grannliðin Haukar og FH leiða saman hesta sína í Olísdeild kvenna í Schenkerhöllinni á Ásvöllum klukkan 14.45. Þar verður vafalaust ekki gefin tomma eftir frekar en áður þegar lið þessara félaga eigast við.
HK leikur sinn fyrsta leik á heimavelli, Kórnum, á þessari leiktíð þegar ÍBV kemur í heimsókn í lokaleik annarrar umferðar Olísdeildar kvenna. Flautað verður til leiks klukkan 16.30. HK tapaði naumlega fyrir Fram í fyrstu umferð með eins marks mun en ÍBV missti fjögurra marka forskot niður í jafntefli við KA/Þór á heimavelli fyrir viku. Leikur HK og ÍBV verður sendur út á youtuberás HK.
Auk leikjanna í Olísdeildum karla og kvenna verða eftirfarandi leikir í Grill 66-deildunum í dag.
Grill 66-deild karla:
Kórinn: HK – Selfoss U, kl. 13.30. –sendur út á youtube rás HK.
Origohöllin: Valur U – Víkingur, kl. 16.
Grill 66-deild kvenna:
Hertzhöllin: Grótta – Fram U kl. 13.30.
Origohöllin: Valur U – Víkingur, kl 18.
Uppfært klukkan 12.20: Áhorfendum verður ekki heimilt að koma á leikina í dag og á morgun.