- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19: Veit að það býr mikið meira í liðinu

Heimir Ríkarðsson ásamt lærisveinum sínum í U19 ára landsliðinu í handknattleik. Mynd/EHF Kolektiffimages
- Auglýsing -

„Stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki. Eftir á þá erum við ánægðir með að hafa þó unnið réttu leikina sem tryggðu okkur áframhaldandi veru á meðal átta bestu sem er afar mikilvægt fyrir framhaldið,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U19 ára landsliðs karla í dag eftir að íslenska landsliðið lauk keppni á Evrópumeistaramótinu í Króatíu.


Íslenska liðið hafnaði í áttunda sæti af þeim sextán sem tóku þátt og innsiglaði þar með áfram veru sína í lokakeppni EM 20 ára landsliða sem fram fer í júlí á næsta ári. Hinsvegar verður ekki framhjá því litið að af sjö leikjum þá töpuðust fimm, þar af síðustu fjórir.


„Við náðum fyrsta markmiðinu sem við settum okkur sem var að komast inn í átta liða úrslit mótsins. Því miður þá náðum við ekki markmiðinu sem stefnt var að í framhaldinu. Það var svekkjandi vegna þess að við ætluðum í undanúrslit. Ég veit að það býr mikið meira í liðinu,” sagði Heimir þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í dag.


„Við gerðum bara alltof mikið af mistökum í þessu móti. Það reyndist okkur dýrt þegar upp er staðið. Skotnýtingin í leiknum við Svía í millriðli varð okkur að falli. Slæm byrjun í upphafsleiknum við Slóvena kom í bakið á okkur í þeirri viðureign. Síðan tókst okkur ekki að klára tvo hörkuleiki sem voru jafnir í lokin, gegn Spáni og Portúgal. Þarna skildi á milli,“ sagði Heimir Ríkarðsson sem kemur heim á morgun með sveit sína eftir hálfs mánaðar úthald í Króatíu. Um leið verður farið að skoða hvað megi betur fara áður en uppistaða þessa liðs tekur þátt í EMU20 ára landsliða í júlí á næsta ári.


Ástæða þess að aðeins líður ár frá lokakeppni EMU19 ára á þessu ári fram að EMU20 ára næsta ári er sú að í ár átti að fara fram HMU19 ára liða. HM var fellt niður vegna kórónuveirunnar. Handknattleiksamband Evrópu ákvað þá að nota tækifærið og blása til EMU19 ára landslið og bæta þar með upp fyrir EMU18 ára landsliða sem slegið var af á síðasta ári.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -