Þrátt fyrir takmarkaðar vinsældir í Evrópu er engan bilbug að finna á hinum nærri 81 árs gamla, Hassan Moustafa forseta Alþjóða handknattleikssambandsins. Hann hefur ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs á 40. ársþingi Alþjóða handknattleikssambandsins sem fram fer á heimavelli hans, Kaíró 21. desember. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef IHF.
Moustafa mun hafa greint samstarfsfólki sínu í stjórn frá ákvörðun sinni á framkvæmdastjórnarfundi í byrjun júní.
Moustafa hefur verið forseti IHF í 25 ár. Á þeim tíma hefur hann tvisvar fengið mótframboð, 2004 og 2009, en síðan setið á friðarstóli.
Hin síðari ár hefur Moustafa þótt vera orðinn hrumur. Hann hefur ruglast í ríminu í ræðum, þótt hægur í hreyfingum og látið minna fyrir sér fara á opinberum vettvangi.
Þjóðverjar styðja mótframboð
Í apríl tilkynnti þýska handknattleikssambandið að það ætlaði að styðja Gerd Butzeck til framboðs gegn Moustafa. Lítið hefur heyrst af því framboði síðan. Verði af framboði Butzeck er talið að hann muni eiga á brattann að sækja vegna þess Evrópuþjóðir eru í umtalsverðum minnihluta atkvæða á þingum IHF.
Þjóðverjar styðja framboð Butzeck til forseta IHF
Egyptinn Hassan Moustafa var kjörinn forseti IHF árið 2000. Hann bauð sig fram gegn Austurríkismanninum Erwin Lanc sem verið hafði forseti í 16 ár. Lanc dró framboð sitt til baka áður en kom til atkvæðagreiðslu.
Fjórum árum síðar skoraði Svíinn Staffan Holmqvist Egyptann á hólm en hafði ekki erindi sem erfiði. Moustafa fékk 85 atkvæði, Holmqvist 46.
Árið 2009 bauð Lúxemborgarinn Jean Kaiser sig fram á móti Moustafa. Kaiser hlaut 25 atkvæði af 142 en Moustafa 115. Moustafa var endurkjörinn án mótframboðs 2013, 2017 og 2021.
Moustafa verður 81 árs 28. júlí nk.