Landsliðskonan Elín Klara Þorkelsdóttir mætti á sína fyrstu æfingu hjá sænska úrvalsdeildarliðinu IK Sävehof í gær. Hún skrifaði í byrjun mars undir þriggja ára samning við félagið sem er með bækistöðvar í Partille í nágrenni Gautaborgar. IK Sävehof er eitt sigursælasta liðið í sænskum handbolta.
Elín Klara, sem varð bikarmeistari með Haukum á síðasta keppnistímabili, var í vor valin besti leikmaður Olísdeildar kvenna þriðja árið í röð og ljóst að hennar bíða nýjar áskoranir í sænsku úrvalsdeildinni hjá fyrrverandi meisturum.
Framundan eru æfingar og leikir næstu vikurnar áður en fyrsta stig bikarkeppninnar hefst síðla í næsta mánuði en að vanda verður leikið í nokkrum fjögurra liða riðlum á fyrsta stigi.
Fyrir utan deildar- og bikarkeppnina í Svíþjóð bíður Elínar Klöru og nýrra samherja að taka þátt í forkeppni Evrópudeildar í lok september og í byrjun október. Sävehof dróst á móti Benifica frá Portúgal. Sigurliðið mætir Viborg frá Danmörku í annarri umferð í fyrri hluta nóvember.
IK Sävehof er sautjánfaldur sænskur meistari í kvennaflokki, síðast 2024
Birna Berg Haraldsdóttir lék með IK Sävehof 2013 til 2015 og varð á þeim tíma fyrst íslenskra kvenna til þess að taka þátt í Meistaradeild Evrópu.