Haukar unnu nauman sigur á FH í grannaslagí Olísdeild kvenna í handknattleik í Schenkerhöllinni á Ásvöllum, 26:25, og náðu þar með í sín fyrstu stig á leiktíðinni. FH-ingar geta nagað sig í handarbökin fyrir að halda ekki betur á spilunum undir lokin. Eftir að hafa unnið upp fimm marka forskot Hauka gat FH-liðið jafnað metin á síðustu sekúndum en ótímabært skot rataði ekki rétta leið og Haukar náðu að hanga á sigrinum.
Haukar voru í því hlutverki að elta FH-inga nánast allan fyrri hálfleikinn í Schenkerhöllinni í dag. Munurinn rokkaði frá einu og upp í tvö mörk FH í vil þar til á síðustu mínútunum að Haukaliðinu tókst að jafna metin. Staðan var 13:13, að loknum fyrri hálfleik.
Haukar byrjuðu síðari hálfleik af krafti. Vörnin batnaði þegar á leið og sóknarleikurinn varð liprari. Einnig kom Karen Birna Aradóttir sterk inn í mark heimaliðsins. Uppskeran varð sú að Haukaliðið náði tveggja til þriggja marka forskoti og þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum var staðan, 19:16, Haukum í vil.
FH-ingar lögðu ekki árar í bát. Þeim tókst að jafna metin tæplega sjö mínútum fyrir leikslok með þrumuskoti Emelíu Óskar Steinarsdóttur. Haukar bitu í skjaldarrendur og juku forskot sitt á ný í tvö mörk, 25:23, þegar hálf fjórða mínúta lifði af leiktímanum. Spenna hljóp í leikinn eftir þetta og átti FH m.a. möguleika á að jafna metin undir lokin en síðasta sókn liðsins rann út sandinn átta sekúndum fyrir leikslok.
Ragnheiður Ragnarsdóttir var markahæst hjá Haukum með sjö mörk. Sara Odden var næst með fimm mörk.
Britney Cots er allt í öllu í sóknarleik FH og án hennar væri harla lítið bit í honum. Hún skoraði 11 mörk annan leikinn í röð. Ranney Þóra Þórðardóttir var næst með fjögur mörk.