- Auglýsing -

Ekki nóg að breyta fyrirkomulaginu – vantar fleiri betri lið

- Auglýsing -


Sitt hefur hverjum sýnst um fyrirkomulag Meistaradeildar Evrópu í handknattleik á síðustu árum. Það hefur verið í föstum skorðum í nærri áratug með sextán liðum í upphafi sem reyna með sér í tveimur riðlum heima og að heiman frá september og fram í lok febrúar eða byrjun mars þegar útsláttarkeppnin hefst.

Margir hafa gagnrýnt keppnina fyrir að vera langdregna og litlausa. Ár eftir ár reyni nánast sömu liðin með sér. Lítil endurnýjun sé meðal þátttökuliða auk þess sem dýrt og erfitt sé að komast í hópinn.

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana sagði í vetur að keppnin væri ekki eins áhugaverð og áður.

Hugmyndir eru á lofti

Sem stendur liggja fyrir sex tillögur að umbótum. Ein þeirra snýst um að stækka Meistaradeildina í 24 lið. Michael Wiederer, forseti Handknattleikssambands Evrópu, undirstrikar að allar breytingar verði gerðar að vel athuguðu máli.

Michael Wiederer forseti EHF. Ljósmynd/Uros Hocevar / Kolektiffimages

Fleiri félög verða að fjárfesta

Wiederer segir ennfremur að ekki sé ástæða til þess að breyta, aðeins breytinganna vegna. Hann segir að þörf sé á fleiri liðum í allra fremstu röð. Það krefst þess hins vegar að félögin fjárfesti meira í næstu kynslóð leikmanna.

„Það ætti að vera hvatning fyrir félögin að einbeita sér að framtíðarleikmönnum,“ segir Wiederer samkvæmt grein Handball-World sem unnin er upp úr ræðu forsetans á dögunum.

Sex þjóðir á liðlega 30 árum

Síðan EHF Meistaradeildin var sett á laggirnar árið 1994 hafa félög frá sex þjóðum unnið keppnina. Wiederer telur þetta vera merki um ójafnvægi. „Viljum við skapa grundvöll fyrir fleiri félög, ekki aðeins hvað varðar þátttöku, heldur einnig þegar kemur að möguleikanum á að vinna Meistaradeildina?“ spyr hann.

Jafnframt geldur Wiederer varhug við að gera breytingar eingöngu breytinganna vegna. „Það er auðvelt að breyta kerfi, en til hvers er það ef við sköpum ekki um leið rétta umhverfið til að fjölga samkeppnishæfum liðum. Takist það ekki þá er kerfið einskis virði,“ segir Wiederer.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -