„Þessi stórsigur var framar vonum en það var mikilvægt að rúlla liðinu vel og margar sem eru að fá gríðalega mikla reynslu,“ sagði Díana Guðjónsdóttir annar þjálfari 17 ára landsliðs kvenna við handbolta.is eftir 18 marka sigur Íslands, 33:15, á færeyska landsliðinu í upphafsleiknum á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi fyrr í dag.
EM17-’25: Stórsigur á Færeyingum í upphafsleik
Spurð hvað hún hafi verið ánægðust með svaraði Díana: „Ég var ánægðust með varnarleikinn og að við stoppuðum árásir færeysku leikmannanna maður á mann.“
Mættust fyrir fáeinum dögum
Á morgun mætir íslenska liðið hollenska liðinu í annarri umferð mótsins. Aðeins eru nokkrir dagar síðan lið Íslands og Hollands mættust í úrslitaleik um bronsverðlaunin á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Skopje í Norður Makedóníu. Ísland vann þá viðureign með fimm marka mun, 31:26.
Díana segir hollenska liðið, eins og það íslenska, vera skipað sömu leikmönnum. Henni sé ekki kunnugt um að breytingar hafi orðið á leikmannhópi Hollands.
Erfiður leikur á morgun
„Það verður erfiður leikur á morgun. Við þurfum að fara vel yfir hollenska liðið og mæta vel undirbúin til leiks,“ sagði Díana Guðjónsdóttir.
Holland og Sviss mætast í hinni viðureign C-riðils klukkan 15 í dag.
Allir leikir EM 17 ára landsliða kvenna eru sendir út á ehftv.com.
EM17-’25: Leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan