Það er ekki aðeins á Íslandi sem illa gengur að gefa út leyfi fyrir þessu og hinu. Skrifræði í Þýskalandi og Egyptalandi hefur veldur því að dregist hefur úr hömlu að egypski handknattleiksmaðurinn Ahmed Khairy geti orðið eftirmaður Andra Más Rúnarssonar hjá þýska liðinu SC DHfK Leipzig.
Khairy hefur ekki fengið atvinnuleyfi í Þýskalandi og má sig þar af leiðandi hvergi hreyfa um þessar mundir. Er svo komið málum að þýska sendiráðið í Kaíró freistar þess að liðka til enda þolir málið litla bið. Skammt er þangað til keppni hefst í þýsku 1. deildinni og undirbúningur SC DHfK Leipzig er kominn á fulla ferði. Khairy má ekki byrja að æfa fyrr en hann hefur atvinnuleyfi í Þýskalandi og verið tryggður eins og félög og leikmenn eru skyldug til.
Khairy hefur lokið læknisskoðun og er við hestaheilsu.
Khairyer ríkisborgari lands utan evrópska efnahagssvæðisins og verður þar af leiðandi að fá atvinnuleyfi í Þýskalandi til þess að verða gjaldgengur með Leipzig. Afgreiðsla leyfisins hefur tekið sinn tíma þar sem ýmis skjöl skortir. Hægagangurinn þykir keyra úr hófi.
Leipzig var í svipuðu stappi þegar markvörðurinn Mohamed El-Tayar var fenginn til félagsins á sínum tíma, einnig frá Egyptalandi. Þá tók pappírsvinnan óheyrilega langan tíma en munurinn þá og nú er sá að þegar markvörðurinn var fenginn til félagsins var ekki sama tímapressa á málinu og nú.