Handknattleiksmaðurinn Jón Bald Freysson lauk í gær göngu sinni til styrktar Píeta samtökunum. Alls gekk Jón 170 km, 10 km lengra en upphaflega stóð til, á þremur dögum. Gangan hófst þar sem Kjalsvegur hefst í Blöndudal og endaði við þjónustumiðstöð hjá Gullfossi.
Margskonar veður
„Veðrið var allskonar,“ sagði Jón við handbolta.is í dag. „Við byrjuðum í góðu veðri fyrsta daginn og svo fór að rigna en það gerði það af og til restina af ferðinni, einnig var talsverður mótvindur alla ferðina,“ sagði Jón sem lét ekkert slá sig út af laginu enda er allra veðra von á Íslandi, allan ársins hring.
Jón gekk ekki einn því foreldrar hans voru með honum á ferðinni allan tímann auk þess sem systir hans gekk með um 100 km.
Píeta er sjálfsvígsforvarnarsamtök sem veita gjaldfrjálsa meðferð fyrir fólk með sjálfsvígshugsanir og stuðning fyrir aðstandendur. Hjálparsími Píeta opinn allan sólahringinn: 552-2218.
Reyndi á andlega og líkamlega
„Ganga var mjög erfið og reyndi á bæði andlega og líkamlega en ég þekki það sjálfur að sundum getur það eitt að standa upp úr rúminu og koma sér af stað inn í daginn reynst erfiðara,“ sagði Jón sem nú kastar mæðinni eftir gönguna. Hann vill þakka fyrir allan stuðning sem hann fékk meðan á göngunni stóð og minnir um leið á að þeir sem eigi þess kost að styðja við Píeta samtökin.
Þakklátur fyrir kveðjur og stuðning
„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir allar kveðjurnar og stuðninginn sem mér barst. Hann var ómetanlegur,“ sagði handknattleiksmaðurinn og göngugarpurinn Jón Bald Freysson.
Um þessar mundir eru Píeta samtökin að safna fyrir nýju heimili.
Gengur til styrktar Píeta samtökunum