Áfram er haldið að orða Guðjón Val Sigurðsson þjálfara Gummersbach við stól þjálfara þýska handknattleiksliðsins THW Kiel. SportBild í Þýskalandi gerir því skóna í dag að Guðjón Valur sé efstur á óskalista forráðamanna THW Kiel næsta sumar þegar samningur félagsins við Tékkann Filip Jícha rennur sitt skeið á enda.
Ekki bara Guðjón Valur
Ekki er nóg með að Guðjón Valur eigi að taka við af Jicha samkvæmt frétt SportBild heldur er einnig ríkur áhugi sagður fyrir því innan THW Kiel að Christoph Schindler framkvæmdastjóri Gummersbach komi með Guðjóni Val til félagsins.
Schindler hefur þótt sýna mikla útsjónarsemi við stjórnun Gummersbach síðustu árin. Hann á að leysa af Austurríkismanninn Viktor Szilagyi sem verið hefur framkvæmdastjóri THW Kiel síðustu sjö ár.
Aðstoðarmaður Dags tekur við?
Í frétt SportBild er þess jafnframt getið að Króatinn Denis Spoljaric taki við af Guðjóni Val hjá Gummersbach verði hann ráðinn til THW Kiel. Spoljaric er aðstoðarmaður Dagur Sigurðssonar hjá króatíska landsliðinu. Spoljaric þekkir vel til í Þýskalandi. Hann lék með Füchse Berlin frá 2010 til 2016, lengst af undir stjórn Dags.
Guðjón Valur skrifaði undir þriggja ára samning við Gummersbach 2024. Hann hefur þjálfað liðið frá 2020 og náð einstaklega góðum árangri.