- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Mjög ánægður með strákana“

Valsarinn Agnar Smári Jónsson í þann mund að hleypa af skoti í leiknum í kvöld. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Ég var mjög ánægður með strákana, ekki síst þar sem ég vissi ekki alveg hvað myndi gerast eftir það sem á undan er gengið hjá okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, eftir sigur á Haukum, 28:24, í meistarakeppni HSÍ í Origohöllinni í kvöld.


„Ég var ánægður með undirbúningstímabilið hjá okkur þangað til við urðum að fara í sóttkví fyrir rúmri viku. Það setti undirbúninginn aðeins úr skorðum en sem betur fer hefur sóttkvíin ekki komið mjög niður á okkur,“ sagði Snorri Steinn sem var afar ánægður með að fá góðan leik áður en liðið heldur út til Króatíu í fyrramálið til tveggja leikja í Evrópukeppninni á föstudag og laugardag.

Vonandi eru meiðsli Einars ekki alvarleg

„Úr því að við unnum leikinn þá mæta menn að minnsta kosti glaðir hingað á ný síðla nætur í ferðina sem framundan er. Ég vona bara að Einar Þorsteinn [Ólafsson] hafi sloppið við alvarleg meiðsli og verði klár í slaginn með okkur á næstunni. Að minnsta kosti fer hann með okkur út í fyrramálið,“ sagði Snorri Steinn en handknattleiksmaðurinn efnilegi Einar Þorsteinn Ólafsson fékk högg á hnéið í fyrri hálfleik í kvöld og kom ekkert við sögu eftir það.

Tumi Steinn Rúnarsson lék á miðjunni í sóknarleik Vals. Mynd/HSÍ


„Það er alltént búið að útiloka að um alvarleg meiðsli sé að ræða eftir því sem ég best veit. Vegna þess að þetta var fyrsti leikur á tímabilinu þá vildi ég ekki tefla á tvær hættur og senda hann inn á völlinn aftur,“ sagði Snorri Steinn en Einar Þorsteinn sló í gegn í úrslitakeppninni í vor.

Fórum í leikinn af alvöru


„Leikurinn í kvöld eykur vissulega álagið á okkur en ég vildi frekar fá þennan leik en ekki og taka þá því sem verða vill ef álagið verður of mikið á okkur á skömmum tíma. Við fórum af alvöru í þennan leik og lékum til sigurs og mér fannst ganga vel. Mér fannst við finna fljótlega taktinn í varnarleiknum og Björgvin Páll fylgdi vel eftir í markinu. Honum óx ásmegin þegar á leikinn leið.


Ég er viss um að þessi leikur gefur okkur mikið. Það skipti miklu máli að komast af krafti af stað á nýjan leik. Framundan eru erfiðir leikir, bæði í Evrópukeppninni og síðan í bikar þegar við komum heim,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í kvöld.

Leikmenn Vals bera saman bækur í sínar ásamt Snorra Steini Guðjónssyni þjálfara. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -