- Auglýsing -
- Eftir miklar vangaveltur og leit að leikmanni síðustu vikur lítur út fyrir að Svíinn Casper Emil Käll verði lausnin á vanda danska úrvalsdeildarliðsins GOG. Margir leikmenn hafa verið orðaðir við liðið í sumar eftir að þýsku meistararnir Füchse Berlin keyptu óvænt Norðmanninn Tobias Grøndahl frá GOG sem leikur í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili.
- Käll hefur síðustu ár leikið með franska liðinu Fenix Toulouse en lék þar áður með Lugi í Lundi.
- Hin þrautreynda þýska landsliðskona Xenia Smits segir leikmenn HB Ludwigsburg vera í áfalli eftir að félagið leysti þá undan samningi í gær, innan við mánuði áður en keppni í þýsku 1. deildinni hefst. Eins og kom m.a. fram á handbolti.is í gær þá tilkynntu forráðamenn HB Ludwigsburg leikmönnum að félagið gæti ekki staðið við gerða samninga. Þar af leiðandi hafi allir samningar verið leystir upp.
- Smits segir mikilvægt fyrir sig og samherja að ana ekki að neinu næstu daga heldur íhuga gaumgæfilega næstu skref. Auk Smits voru a.m.k. fimm aðrar landsliðskonur samningsbundnar Ludwigsburg, þar á meðal Antje Döll fyrirliði landsliðsins.
- Auk þess að vera helsta kempa HB Ludwigsburg er Smits einnig kjölfesta í þýska landsliðinu sem tekur þátt heimsmeistaramótinu á heimavelli í lok nóvember og í byrjun desember. Smits og samherjar eru í riðli með íslenska landsliðinu.
- Eins og nærri má geta eru tíðindin af bágri stöðu fremsta kvennaliðs þýsks handknattleiks reiðarslag fyrir kvenna handboltann í Þýskalandi rúmum þremur mánuðum áður en HM hefst.
- Áformaður fyrsti opinberi kappleikur HB Ludwigsburg á nýju keppnistímabili á vera gegn HSG Blomberg-Lippe 23. ágúst í meistarakeppninni. Viku síðar á keppni efstu deild kvenna að hefjast.
- Auglýsing -