Axel Stefánsson, handknattleiksþjálfari, og leikmenn hans í Storhamar byrjuðu keppni í norsku úrvalsdeild kvenna með sigri á Larvik, 30:26, á útivelli eftir hreint ævintýralegan síðari hálfleik. Storhamar skoraði þá 21 mark og vissu leikmenn Larvik ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Larvik var sjö mörkum yfir í hálfleik 16:9 og allt stefndi í öruggan sigur. Axel og liðsmenn hans voru á öðru máli.
„Í síðari hálfleik fór liðið að spila eins og það hefur verið að gera í æfingaleikjunum og við snerum þessu,“ sagði Axel glaður bragði í skilaboðum til handbolta.is. Hann tók við þjálfun Storhamar um mitt árið.
Tap hjá Birtu Rún
Birta Rún Grétarsdóttir og samherjar hennar í Oppsal máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir Molde, 36:30, á heimavelli í kvöld, einnig í norsku úrvalsdeildinni. Tölfræði uppfærsla frá leiknum á heimasíðu norska handknattleikssambandsins er í handaskolum. Þess vegna er ekki ljóst hvort Birta Rún skoraði í leiknum en hún er nýlega komin af stað aftur eftir að hafa slitið krossband fyrir um ári.
Öruggt eins og við var búist
Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari og lið hans Volda, komust klakklaust í næstu umferð norsku bikarkeppninnar í kvöld, eins og við var búist. Volda vann Godøy, 35:12, á útivelli. Godøy er í fjórðu deild en Volda í næst efstu deild og stefnir á að sigla upp í úrvalsdeild á næsta vori.
Katrín Tinna Jensdóttir, unglingalandsliðskona, lék sinn fyrsta leik fyrir Volda eftir að hafa gengið til liðs við félagið í sumar frá Stjörnunni. Hún skoraði ekki mark.
Hilmar Guðlaugsson er aðstoðarþjálfari hjá Volda.