„Það var grátlega að ná ekki í annað stigið,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari 19 ára landsliðsins í handknattleik karla þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans til Kaíró eftir eins marks tap, 29:28, fyrir Serbum í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins. Tapið þýðir að íslenska liðið verður vinna Spánverja á morgun til að öðlast sæti í 8-liða úrslitum.
„Að ná ekki að kroppa stig út úr leiknum var grátlegt því það hefði nægt okkur til þess að komast í átta liða úrslit,“ sagði Heimir sem var alls ekki ánægður með leik liðsins, ekki síst í fyrri hálfleik.
„Við getum sjálfum okkur um kennt hvernig þetta fór. Við spiluðum bara alls ekki nógu vel. Varnarleikurinn í fyrri hálfleik var alls ekki nógu góður og þar af leiðandi náðist aldrei upp nein markvarsla.
Þegar komið var fram í síðari hálfleik tókst okkur að bæta varnarleikinn og mér fannst við ráða vel við Serbana en því miður brást þá sóknarleikurinn, oft og tíðum. Við höfðum rætt það vel saman að gefa okkur tíma í sókninni og þreyta Serbana en því miður þá varð allof oft misbrestur á því auk þess sem við misstum boltann oft illa og fengum á okkur tvö sóknarbrot,“ sagði Heimir.
Ekkert sem heitir á morgun
Á morgun verður ekkert sem heitir hjá íslenska liðinu. Ekkert annað en sigur á Spánverjum nægir til þess að komast áfram í átta liða úrslit.
„Það er bara verkefni okkar á morgun að vinna Spánverjana og til þess verðum við að spila mjög góðan leik. Við mættum þeim fyrir rúmum mánuði á Opna Evrópumótinu og töpuðum með einu marki. Það er allt hægt,“ sagði Heimir Ríkarðsson ákveðinn í bragði í samtali við handbolta.is.
Ef íslenska liðið tapar fyrir Spáni eða gerir jafnteflið leikur það um sæti 9 til 12 á fimmtudag og föstudag. Sigur á Spáni þýðir að Serbar leika um sæti 9 til 12 en Ísland og Spánn fara í 8-liða úrslit sem leikin verða á fimmtudaginn.
HM19-’25: Tap fyrir Serbum – framhaldið ræðst gegn Spánverjum
HM19-’25: Milliriðlar, dagskrá, úrslit, staðan