Íslandsmeistarar Vals eru komnir áfram í aðra umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla eftir eins marks sigur í dag á RK Porec, 22:21, og samanlagt 44:39, eftir tvo leiki. Valsmenn unnu einnig fyrri leikinn í gær, 22:18. Báðar viðureignir fór fram í Porec í Króatíu.
Það blés um skeið ekki byrlega fyrir Valsmenn að þessu sinni en með afar góðum leik í síðari hálfleik í dag tókst að snúa við blaðinu gegn harðskeyttum leikmönnum RK Porec sem voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 12:7.
Valsmenn byrjuðu leikinn afar illa og segja má að þeir hafi átt hressilega undir högg að sækja nær allan fyrri hálfleikinn. Eftir jafna stöðu, 5:5, að loknum sjö mínútum þá fór allt í baklás í sóknarleiknum. Leikmenn RK Porec gengu á lagið og skoruðu sex mörk í röð án þess að Valur næði að svara fyrir sig. Útlitið var ekkert endilega bjart í hálfleik. RK Porec var með fimm marka forskot, 12:7, og byrin með heimaliðinu.
Valur náði áhlaupi strax í upphafi síðari hálfleiks og minnkaði muninn í eitt mark, 14:13. Heimamenn náðu um skeið þriggja marka forskoti en Valsmenn voru komnir á bragðið. Þeir gáfu ekkert eftir þrátt fyrir afar harða mótspyrnu leikmanna RK Porec sem voru vægast harðir í horn að taka. Reyndar voru þeir mjög grófir í báðum leikjum þótt dómararnir frá Slóvakíu gerðu hvað þeir gátu til að hemja þá með brottvísunum og rauðum spjöldum. Þeim varð hinsvegar ekki kápan úr því klæðinu þegar upp var staðið eftir leikina tvo. Valsmenn koma heim með farseðil í aðra umferð í farteskinu.
Mörk Vals: Magnús Óli Magnússon 9, Einar Þorsteinn Ólafsson 3, Finnur Ingi Stefánsson 2, Þorgeir Bjarki Davíðsson 2, Arnór Snær Óskarsson 2, Benedikt Gunnar Óskarsson 2, Agnar Smári Jónsson 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1.
Önnur umferð Evrópudeildarinnar fer fram í október en dregið verður til umferðarinnar í byrjun næstu viku.