Saga Sif Gísladóttir verður ekki markvörður Aftureldingar í Grill 66-deildinni á komandi leiktíð. Hún staðfesti við Handkastið að hafa rift samningi sínum við Mosfellinga í sumar eftir tveggja ára veru hjá félaginu. Saga Sif samdi við Aftureldingu til þriggja ára þegar hún hafði nýlega snúið til baka eftir að hafa átt barn. Á þeim tíma var Afturelding í Olísdeildinnni.
Annir við vinnu eru að sögn Sögu Sifjar ástæða þess að hún vildi rifa seglin í handboltanum. Hún hefur engu að síður tekið upp æfingar með bikarmeisturum Hauka og fór í dag í æfingaferð með félaginu til Tenerife.
Áður en Saga Sif gekk til liðs við Aftureldingu 2023 hafði hún staðið vaktina í marki Vals frá 2020. Einnig hefur Saga Sif varið mark Hauka, Fjölnis og FH þar sem hún byrjaði í handbolta. Hún á einnig nokkra landsleiki að baki og var síðast í landsliðshópnum gegn Svíum í undankeppni haustið 2021.