„Ég er mjög ánægður með upphafskaflann hjá okkur. Vörnin var þétt og Björgvin Páll varði mörg góð skot. Í framhaldinu virkuðu hraðaupphlaupin vel með þeim afleiðingum að okkur tókst að refsa leikmönnum ÍBV oft. Þar með lögðum við ákveðinn grunn,“ sagð Aron Kristjánsson, þjálfari karlaliðs Hauka, eftir sjö marka sigur liðsins á ÍBV, 30:23, í annarri umferð Olísdeildar karla í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld.
„Uppstilltur sóknarleikur okkar var einnig góður. Við náðum upp fínum hraða sem getur oft verið erfitt gegn 5/1 vörn ÍBV. Þegar upp er staðið þá skoruðum við 30 mörk þótt fimm vítaköst hafi farið forgörðum. Við áttum góðan leik en við verðum að finna lausn á þessum erfiðleikum okkar með að skora úr vítaköstum. Það er alveg ljóst,“ sagði Aron og bætti við að erfiðleikarnir við að skora úr vítaköstum væru ekki nýir af nálinni. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að æfa vítaköst upp á síðkastið en ljóst væri að betur megi ef duga skuli.
„Leikur okkar var að minnsta kosti töluvert betri en gegn Gróttu í fyrstu umferð. Við megum hinsvegar ekki dvelja of lengi við þennan leik. Okkar bíður mjög erfitt verkefni í Garðabæ á föstudaginn gegn Stjörnunni,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, ánægður að leikslokum í Schenkerhöllinni í kvöld.