Handknattleiksdómararnir Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma fyrri viðureign sænsku liðanna HK Malmö og IK Sävehof í forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik. Þetta verður fyrsti leikur þeirra félaga í Evrópu á keppnistímabilinu en þeir dæmdu marga leiki á síðustu leiktíð, bæði í Evrópudeildinni og eins landsleiki í undankeppni EM 2026.
Leikurinn sem Svavar og Sigurður dæma fer fram í Malmö sunnudaginn 31. ágúst. Liðin mætast öðru sinni í Partille viku síðar. Sigurliðið tekur sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem fer af stað í október.
Birgir Steinn Jónsson verður væntanlega í eldlínunni með IK Sävehof en hann gekk til liðs við félagið í sumar frá Aftureldingu.
Auk Sigurðar og Svavars verða tveir íslenskir eftirlitsmenn við störf þessa helgi, 30. og 31. ágúst.
Hlynur til Jótlands
Hlynur Leifsson verður eftirlitsmaður EHF á viðureign Skanderborg AGF Maritimo da Madeira sem fram fer í Aarhus 30. ágúst í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Hlynur verður ekki eini Íslendingurinn sem tekur þátt í leiknum vegna þess að landsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson, Donni, leikur með Skanderborg AGF.
Kristján fer til Noregs
Daginn eftir, 31. ágúst verður Kristján Halldórsson eftirlitsmaður á viðureign Elverum og Bathco Bm Torrelavega frá Spáni sem leikinn verður í Terningen Arena í Elverum. Tryggvi Þórisson gekk til liðs við Elverum í sumar og verður að öllu óbreyttu í leikmannahópi liðsins.