Víkingur vann stórsigur á Selfoss, 38:28, í síðari leik kvöldsins í fyrstu umferð Ragnarsmóts karla í handknattleik í Sethöllinni á Selfossi. Verulegur munur var á liðunum nánast frá upphafi til enda. Víkingur var sjö mörkum yfir að lokum fyrri hálfleik, 22:15. Selfoss-liðið hafi ekki burði til þess að koma til baka í síðari hálfleik. Þvert á móti náðu Víkinga fljótalega 10 marka forskoti hélst meira og minna til leiksloka.
Varnarleikur og markvarsla var vart viðunandi hjá Selfoss-liðinu að þessu sinni. Eins var töluvert um einföld mistök í sóknarleiknum. Meðan Víkingar léku á sínu sterkasta var mikill munur á liðunum. Ef marka má viðureignina þá virðist Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Víking hafa náð saman allgóðri breidd í leikmannahóp með nokkrum viðbótum m.a. frá Stjörnunni í markverðinum Daða Bergmann Gunnarssyni og hægri hornamanninum kvika, Rytis Kazakevicius. Daði átti stórleik í markinu í síðari hálfleik, varði 11 skot.
Næstu leikir í karlaflokki Ragnarsmótsins verða á miðvikudagskvöldið þegar ÍBV og Víkingur eigast við klukkan 18 og Selfoss og HK hefja leik klukkan 20.15.
Annað kvöld hefst Ragnarsmóti í kvennaflokki. Víkingur og ÍBV mætast klukkan 18 og Selfoss og Afturelding klukkan 20.15.
Mörk Selfoss: Hákon Garri Gestsson 8, Alvaro Mallols Fernandez 4, Hannes Höskuldsson 4, Tryggvi Sigurberg Traustason 4, Árni Ísleifsson 2, Elvar Elí Hallgrímsson 2, Jónas Karl Gunnlaugsson 2, Ragnar Hilmarsson 1, Ísak Kristinn Jónsson 1.
Varin skot: Ísak Kristinn Jónsson 8, Egill Eyvindur Þorsteinsson 3.
Mörk Víkings: Sigurður Páll Matthíasson 11, Rytis Kazakevicius 6, Kristján Helgi Tómasson 5, Ísak Óli Eggertsson 3, Þorfinnur Máni Björnsson 3, Ásgeir Snær Vignisson 2, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 2, Stefán Scheving Th. Guðmundsson 2, Arnar Már Ásmundsson 1, Felix Már Kjartansson 1, Halldór Ingi Óskarsson 1, Nökkvi Gunnarsson 1.
Varin skot: Daði Bergmann Gunnarsson 11, Stefán Huldar Stefánsson 5.
Skiptur hlutur í fyrsta leiknum á Selfossi
Allir leikir Ragnarsmótsins eru sendir út á Handboltapassanum.