Stórleikur Birgis Steins Jónssonar nægði IK Sävehof ekki til sigurs á Tyresö í fyrsta leik liðanna í riðlakeppni sænsku bikarkeppninnar í handknattleik í kvöld. Tyresö, sem leikur í næst efstu deild, vann úrvalsdeildarliðið með tveggja marka mun, 39:37, á heimavelli eftir að hafa verið níu mörkum yfir í hálfleik.
Birgir Steinn, sem gekk til liðs við Sävehof frá Aftureldingu í sumar, skoraði átta mörk í sínum fyrsta opinbera kappleik með liðinu. Leikmenn Sävehof fóru illa af stað í leiknum og voru níu mörkum undir í hálfleik, 22:13.
IK Sävehof mætir Huddinge HK á laugardaginn í annarri umferð riðlakeppninnar.
Sigurmark á síðustu sekúndu
Mikil spenna var í viðureign Íslendingaliðanna HF Karlskrona og Amo HK. Síðarnefnda liðið var lengi vel með frumkvæðið en leikmenn Karlskrona, með Eyjamanninn Arnór Viðarsson innanborðs, sóttu í sig veðrið á síðustu tíu mínútum. Þeir jöfnuðu metin og var allt í járnum nær því til enda. Lynx Beverskog skoraði sigurmark Amo HK rétt í þann mund sem leiktíminn var úti, 29:28. Amo-liða tóku leikhlé í jafnri stöðu, 28:28, þegar 17 sekúndur voru til leiksloka. Áður hafði sókn Karlskrona-liðsins runnið út í sandinn.
Fjögur íslensk mörk
Stórskyttan Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði þrjú mörk fyrir Amo HK.
Arnór Viðarsson skoraði einu sinni í sínum fyrsta opinbera leik með HF Karlskrona en hann kom til félagsins fyrir hálfum mánuði frá Fredericia HK í Danmörku.
Ólafur Andrés Guðmundsson var ekki í leikmannahópi HF Karlskrona.
Leikið er í átta fjögurra liða riðlum á þessu stigi bikarkeppninnar og komast tvö áfram úr hverjum eftir að leikin hefur verið einföld umferð í hverjum riðli.