Fyrsti formlegi leikur keppnistímabilsins fer fram í kvöld þegar Fram og Stjarnan mætast í Meistarakeppni HSÍ í karlaflokki. Leikið verður á heimavelli tvöfaldra meistara síðasta árs, Fram, í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal. Flautað verður til leiks klukkan 19 og leikið skal til þrautar. Stjarnan tapaði fyrir Fram í úrslitum Poweradebikarsins í byrjun mars og þar með andstæðingur Fram í leiknum.
Viðureignin í Meistarakeppninni er í fyrra fallinu miðið við síðustu ár vegna þátttöku Stjörnunnar í forkeppni Evrópudeildar eftir rúma viku.
Auk leiksins í Meistarakeppninni HSÍ verður áfram leikið í kvöld á Ragnarsmótinu í handknattleik kvenna í Sethöllinni á Selfossi.
Leikir kvöldsins verða sendir út á Handboltapassanum. Guðjón Guðmundsson, Gaupi, og Einar Ingi Hrafnsson lýsa leik Fram og Stjörnunnar úr Lambhagahöllinni.
Valur og Haukar mætast í Meistarakeppni kvenna laugardaginn 30. ágúst í N1-höllinni.
Leikir kvöldsins
Meistarakeppni HSÍ, karlaflokkur:
Lambhagahöllin: Fram – Stjarnan, kl. 19.
Ragnarsmót kvenna, 2. umferð:
Sethöllin: ÍBV – Afturelding, kl. 18.
Sethöllin: Selfoss – Víkingur, kl. 20.15.
Úrslit 1. umferðar (þriðjudagskvöld):
Víkingur – ÍBV 19:38.
Selfoss – Afturelding 35:24.
- Síðustu tveir leikirnir fara fram á föstudag og laugardag.