„Það var bikar í boði og við fórum að sjálfsögðu í leikinn til þess að vinna hann,“ sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í viðtali við handbolta.is í kvöld eftir að Stjarnan lagði Fram, 29:28, í spennandi leik í Meistarakeppni HSÍ sem fram fór í Lambhagahöllinni, heimavelli Íslands- og bikarmeistara Fram.
Leikurinn í kvöld var síðasta viðureign Stjörnunnar áður en liðið heldur til Rúmeníu um miðja næstu viku til viðureignar við Minaur Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar. Liðin mætast aftur á heimavelli Stjörnunnar viku síðar. Samanlagður sigurvegari kemst í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem hefst í október
Hrannar sagði liðið hafa æft vel síðustu vikur til undirbúnings fyrir átökin sem framundan eru. „Við erum klárir í slaginn,“ bætti Hrannar við.
Tveir á sjúkralista
Tveir leikmenn Stjörnunnar eru á sjúkralista; Starri Friðriksson og Sveinn Andri Sveinsson. Vonir standa til þess að Starri geti tekið þátt í Evrópuleikjunum en útilokað er að Sveinn Andri verði þátttakandi. Enn er mánuður þangað til hann mætir til leiks.
Hrannar segir undirbúningstímann hafa gengið nokkuð vel. „Það eru alltaf hæðir og lægðir og miklar sveiflur, eins og gengur,“ sagði Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Lengra viðtal við Hrannar þjálfara Stjörnunnar í er myndskeiði hér fyrir ofan.