Áfram var leikið í sænsku bikarkeppninni í handknattleik í gærkvöld og voru íslenskir handknattleiksmenn með tveimur liðum í leikjum kvöldsins. Arnór Viðarsson skoraði fimm mörk þegar Karlskrona lagði Drott, 42:27, á útivelli. Hann lét einnig til sína taka í vörninni.
Þetta var fyrsti sigur Karlskrona í keppninni eftir naumt tap fyrir Amo HK á miðvikudaginn.
Ólafur Andrés Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Karlskrona.
Arnar Birkir Hálfdánsson og liðsfélagar í Amo eru á meðal þeirra sem verða á ferðinni í bikarkeppninni í dag. Amo HK tekur þá á móti Linköping.
Dagur Sverrir með nýju liði
Dagur Sverrir Kristjánsson var í leikmannahópi Vinslövs í sigri á IFK Ystads, 27:25, í Ystad. Dagur Sverrir gekk til liðs við Vinslövs í sumar eftir tveggja ára veru hjá Karlskrona. ÍR-ingurinn fyrrverandi skoraði ekki mark í leiknum í Ystads.
Vinslövs hefur einn vinning í fjórða riðli eins og Karlskrona að loknum tveimur leikjum.