Blomberg-Lippe, sem landsliðskonurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir leika með, tapaði naumlega fyrir Thüringer HC í meistarakeppninni í þýska handknattleiknum í dag. Viðureignin fór fram í SAP Garden-íþróttahöllinni í München en hún er innan hins glæsilega Ólympíusvæðis borgarinnar frá leikunum 1972. Áhorfendur voru 10.298 og hafa aldrei verið fleiri á leik tveggja þýskra kvennaliða þar í landi.
Andrea skoraði fimm mörk í sex skotum, gaf tvær stoðsendingar, varði tvö skot í vörninni og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Elín Rósa skoraði eitt mark í sjö skotum og átti fjórar stoðsendingar. Díana Dögg skoraði ekki mark.
Blomberg-Lippe fékk draumabyrjun í leiknum og var 11:3 yfir eftir 17 mínútur. Leikmenn Thüringer létu ekki hug falla eftir slæma byrjun. Blromberg var með fjögurra marka forskot í hálfleik, 14:10. Leikmenn Thüringer HC blésu síðan til enn meiri sóknar í síðari hálfleik og náðu að komast yfir um miðjan hálfleikinn. Thüringer HC lét forystu sína ekki af hendi eftir það.
Keppni í 1. deild kvenna í Þýskalandi hefst eftir viku. Blomberg-Lippe mætir Buxtehuder SV á heimavelli í 1. umferð.
Upphaflega stóð til að Blomberg-Lippe mætti í dag meisturum og bikarmeisturum síðustu leiktíðar, HB Ludwigsburg. Eftir að Ludwigsburg sagði upp öllum leikmönnum sínum vegna fjárhagserfiðleika var liðinu skipt út fyrir Thüringer HC.
Síðar í dag mætast á sama leikstað Füchse Berlin og THW Kiel í meistarakeppninni í karlaflokki.