„Það verður ótrúlega gaman að taka þátt í þessum leik með Aroni,“ segir Bjarki Már Elísson leikmaður ungverska meistaraliðsins One Veszprém þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir æfingu Veszprém í Kaplakrika fyrir hádegið í dag. Bjarki Már er kominn til Íslands með ungverska liðinu sem mætir FH í kveðjuleik glæsilegs ferils Arons Pálmarssonar sem fer fram í Kaplakrika á föstudaginn klukkan 18.30.
Aron lék með One Veszprém á síðasta tímabili en einnig frá 2015 til 2017.
Veszprém er eitt allra stærsta félagslið Evrópu í handknattleik er mætt með 24 manna hóp leikmanna til Íslands í leikinn og fer aftur heim á laugardaginn.
Sjáum ekkert af landinu
„Við æfum bara alltof mikið meðan við erum hérna og náum þar af leiðandi ekkert að sjá af landinu,“ sagði Bjarki Már brosandi en liðið æfir tvisvar í dag, tvisvar á morgun auk þess að fara á lyftingaæfingu strax við komuna til Íslands síðdegis í gær.
„Það að taka þátt í þessum leik á föstudaginn er algjörlega nýtt fyrir okkur. Yfirleitt erum við á æfingum einhverstaðar nærri okkur bækistöðvum rétt fyrir keppnistímabilið.
Aron er goðsögn í handboltanum, ekki bara hér heima heldur einnig í Evrópu og fyrir þessa stráka og fyrir mig einnig,“ sagði Bjarki Már.
Síðasti leikur fyrir alvöruna
„Þetta er síðasti leikur hjá okkur áður en keppnistímabilið hefst hjá okkur. Þjálfarinn er farinn að skrúfa upp í alvarleikanum og vill sjá frammistöðu. Við munum þar af leiðandi taka leikinn alvarlega og gera okkar besta.
Ég vil hvetja alla til þess að koma á völlinn og kveðja Aron eftir það sem hann hefur gefið þjóðinni. Hann á það skilið að Krikinn verður fullur af fólki á föstudaginn,“ segir Bjarki Már Elísson, leikmaður One Veszprém og íslenska landsliðsins.
Lengra viðtal við Bjarka Má er í myndskeiði hér fyrir ofan.
- Kveðjuleikur Arons hefst í Kaplakrika á föstudaginn kl. 18.30.
- Miðasala er á stubb.is.
- Nánari upplýsingar um dagskrá dagsins er að sjá í auglýsingunni hér fyrir neðan.
