Stjarnan mætir rúmenska liðinu CS Minaur Baia Mare í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik í dag. Viðureignin fer fram í Baia Mare í Rúmeníu og hefst klukkan 15. Ekki er vitað til þess að leiknum verði streymt á youtube né á ehftv.com. Um er að ræða fyrsta leik karlaliðs Stjörnunnar í Evrópukeppni frá árinu 2007.
Leikurinn í dag er sá fyrri á milli liðanna í forkeppni Evrópudeildar. Þau eigast við öðru sinni í Hekluhöllinni eftir viku. Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja tekur sæti í C-riðli Evrópudeildarinnar ásamt Granollers frá Spáni, Grosist Slovan, meistaraliði Slóveníu og annað hvort Skanderborg AGF frá Danmörku eða Marítimo frá portúgölsku eyjunni fögru, Madeira.
Hafa lagt nótt við dag
Leikmenn Stjörnunnar komu ásamt fylgdarliði til Baia Mare á miðvikudagskvöld og hefur síðan lagt nótt við dag í undirbúning fyrir leikinn í dag. Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar sagði við handbolta.is í vikunni að lið hans yrði að ná toppleik til þess að standa leikmönnum CS Minaur Baia Mare á sporði.
Heimamenn í meirihluta
Í leikmannahópi CS Minaur Baia Mare eru 15 Rúmenar, tveir Úkraínumenn, einn Brasilíumaður, einn Tékki, einn Króati og einn Egypti.
Bosníumennirnir Tatjana Prastalo og Vesna Balvan dæma leikinn í dag. Eftirlitsmaður EHF kemur úr næsta nágrenni, frá Ungverjalandi.
Starri verður í hópnum í dag
Leikmenn Stjörnunar sem taka þátt í leiknum í dag: Adam Thorstensen, Sigurður Dan Óskarsson, Jóhannes Bjørgvin, Patrekur Öfjörð Guðmundsson, Gauti Gunnarsson, Tandri Már Konráðsson, Ísak Logi Einarsson, Loftur Ásmundsson, Starri Friðriksson, Pétur Árni Hauksson, Jóel Bernburg, Hans Jörgen Ólafsson, Jón Ásgeir Eyjólfsson, Barnabás Rea, Daníel Karl Gunnarsson, Benedikt Marinó Herdísarson.
Starri Friðriksson er í fyrsta sinn í leikmannahópi Stjörnunnar síðan snemma árs.
Aðrir leikir forkeppninnar í dag:
SAH Skandeborg – Maritimo.
Mors Thy – St Raphaël.
Chrobry Glogow – HF Karlskrona.
RK Gorenje Velenje – HC Kriens-Luzern.
RK Partizan – HCB Karvina.
Bidasoa Irún – ABC de Braga.
RK Medjimurje – BSV Bern
Leikir í forkeppninni á morgun:
Elverum – Bathco Bm. Torrelavega.
HK Malmö – IK Sävehof.
Hannover-Burgdorf – RK Alkaloid.
MRK Dugo Selo – MRK Sesvete.