Ólga er sögð ríkja milli stjórnenda þýska meistaraliðsins Füchse Berlin eftir því sem þýskir fjölmiðlar greina frá í dag. Vík mun vera á milli vinanna Bob Hanning framkvæmdastjóra og Stefan Kretzschmar íþróttastjóra. Hinn síðarnefndi tilkynnti skömmu fyrir hádegið að hann hafi ákveðið að hverfa frá félaginu í lok næstu leiktíðar.
Kretzschmar sagði í tilkynningu sinni að með henni vilja hann taka af allan vafa um stöðu sína til framtíðar hjá félaginu í ljósi umfjöllunar fjölmiðla.
Framtíð þjálfarans Jaron Siewert er sögð í óvissu en Hanning hefur kennt Kretzschmar um að draga lappirnar í þjálfaramálunum. Sport Bild segir Hanning hafa boðið þjálfaranum eins árs framlengingu á samningi, til ársins 2027 sem mörgum þykir rýrt eftir frábært starf Siewert á síðustu árum.
Autt sæti var á milli Hanning og Kretzschmar á fyrsta heimaleik Füchse Berlin á sunnudaginn og ræddust þeir ekkert við. Þetta gaf sögusögnum um ósætti þeirra byr undir báða vængi.
Dagur og Kehrmann nefndir
Florian Kehrmann hinn þrautseigi þjálfari Lemgo hefur verið nefndur sem næsti þjálfari Füchse Berlin og eins Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Króatíu. Dagur var þjálfari Füchse Berlin frá 2009 til 2015. Hann hefur reyndar áður verið orðaður við fleiri þjálfarastörf á síðustu misserum, m.a. þegar Flensburg var í þjálfaraleit í upphafi ársins. Dagur er samningsbundinn króatíska handboltasambandinu til ársins 2027.