- Auglýsing -

Er Kaufmann að leiða handboltann inn á nýjar brautir?

- Auglýsing -


TVB Stuttgart, sem leikur nú undir stjórn svissneska Misha Kaufmann sem áður þjálfaði ThSV Eisenach, kom mjög á óvart með góðum leik og náði í sanngjarnt jafntefli gegn stórliði Flensburg á erfiðum útivelli, 29:29, í þýsku 1. deildinni í gærkvöld.

Margt bendir til þess að Stuttgart-liðið sé að rísa úr öskustónni eftir erfið ár undir stjórn Misha Kaufmann sem tók við þjálfun Stuttgart í sumar. Hann vakti athygli fyrir athyglisverðan árangur með Eisenach og þykir nýjungagjarn og frumlegur á tíðum eins og komið hefur í ljós í fyrstu leikjum hans með Stuttgart-liðið.

Enginn línumaður – fjórar skyttur

Það sem vekur athygli margra handboltaspekinga er að Kaufmann lætur sitt lið Stuttgart, eins og Eisenach í fyrra, leika án línumanns mest allan leikinn og notar fjórar skyttur fyrir utan. Kaufmann hefur fundið athyglisverðar leiðir og útfærslur á þessu leikafbrigði. Stuttgart liðið lék mjög árangursríkan handbolta í gærkvöld með útfærðum leikfléttum.

Það er þó nokkuð síðan að svona athyglisverðar breytingar á leikskipulagi hafa komið fram, eiginlega ekki síðan lið fóru að taka markvörðinn af velli til að bæta við sóknarmanni. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari þróun og hvort fleiri lið fari að taka þetta upp í sínum sóknarleik.


Hér fyrir neðan má sjá valda kafla úr leik TVB Stuttgart og Flensburg í gærkvöld þar sem Stuttgart lék hvað eftir annað án línumanns.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -