Eftir mikinn óróa og uppnám innan þýska meistaraliðsins Füchse Berlin í vikunni þá tapaði liðið með sjö marka mun á heimavelli í dag fyrir SC Magdeburg, 39:32. Nýr þjálfari Berlínarliðsins, Nicolej Krickau, er ekki öfundsverður að standa í stafni eftir það sem undan er gengið. Hann hafði engin ráð gegn liðsmönnum Bennet Wiegert í SC Magdeburg sem trylltu sér í efsta sætið með sigrinum.
Krickau var brattur eftir leikinn og hét því að hann og liðsmenn hans kæmu af tvöföldum til krafti til næstu leikja en ljóst hafi verið að fregnir síðustu daga hafi haft slæm áhrif á hans lið.
Íslensku handknattleikmennirnir Ómar Ingi Magnússon, Elvar Örn Jónsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson létu svo sannarlega til sín taka og báru leik Magdeburg uppi.
Ómar Ingi skoraði níu mörk, sex þeirra úr vítaköstum, og gaf þrjár stoðsendingar.
Elvar Örn skoraði sex mörk, gaf eina stoðsendingu auk þess að vera vikið af velli í tvígang.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar.
Lasse Bredekjær Andersson skoraði níu mörk fyrir Füchse Berlin og Mathias Gidsel skoraði átta mörk.
Ýmir fagnaði – stórleikur Viggós
Ýmir Örn Gíslason fyrirliði Göppingen fagnaði sigri í heimsókn til HC Erlangen, 29:28. Ýmir Örn skoraði ekki en var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. HC Erlangen var yfir nær allan tímann en Göppingen seig fram úr á allra síðustu mínútum.
Það hafði slæm áhrif á varnarleik HC Erlangen þegar Marek Nissen fékk beint rautt spjald þegar á leið síðari hálfleikinn í stöðunni, 22:22.
Stórleikur Viggós Kristjánssonar dugði Erlangen ekki. Hann skoraði níu mörk og gaf sjö stoðsendingar. Andri Már Rúnarsson skoraði eitt mark af línu eftir sendingu frá Viggó.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.