- Auglýsing -

Evrópumeistararnir tóku upp þráðinn þar sem frá var horfið

- Auglýsing -


Evrópumeistarar SC Magdeburg hófu keppnistímabilið í Meistaradeild Evrópu eins og þeir luku því síðasta, þ.e. á sigri. Magdeburg vann PSG á heimavelli í kvöld með sex marka mun, 37:31. Franska meistaraliðið var skrefi á eftir frá upphafi til enda. Frammistaða Magdeburg undirstrikaði gríðarlegan styrk liðsins um þessar mundir. Sérstaklega var sóknarleikur liðsins sérdeilis skemmtilegur á að horfa.


Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk fyrir Magdeburg, þrjú þeirra úr vítaköstum. Svíinn Felix Claar var atkvæðamestur með 11 mörk og brást ekki bogalistin í einu skoti.

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti framúrskarandi leik með þrjú mörk og sex stoðsendingar.

Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni. Honum var einnig vikið af leikvelli en Elvar Örn lét mjög til sín taka við varnarleikinn.

Pólski línumaðurinn sterklegi, Kamil Syprzak, skoraði 13 mörk fyrir PSG og var markahæstur eins og stundum áður. Fimm markanna skoraði Syprzak úr vítaköstum.

Staðan var 21:17 þegar fyrri hálfleikur var að baki.

Sögulegur sigur Pelister

Norður Makedóníumeistarar Eurofarm Pelister unnu króatísku meistarana RK Zagreb, 25:23, í Bitola í Norður Makedóníu. Þetta var í fyrsta sinn sem Eurofarm Pelister leggur RK Zagreb. Dejan Manaskov skoraði átta mörk fyrir Pelister. Filip Glavas skoraði sjö mörk fyrir RK Zagreb.

Engan skal undra þótt hitnað hafi undir þjálfara Zagreb eftir úrslit kvöldsins enda ekki mikil þolinmæði meðal stjórnenda félagsins sem skipta tvisvar til þrisvar á leiktíð um þjálfara.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -