-Auglýsing-

Landsliðskonurnar létu til sín taka í 10 marka sigri

- Auglýsing -


HSG Blomberg-Lippe, lið landsliðskvennanna þriggja Andreu Jacobsen, Díönu Daggar Magnúsdóttur og Elínar Rósu Magnúsdóttur, trónir á toppi þýsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir stórsigur á Evrópudeildarmeisturum síðustu leiktíðar, Thüringer HC, 35:25, á heimavelli í dag. Leikmenn Blomberg-Lippe léku við hvern sinn fingur í leiknum. Mikill kraftur var í leikmönnum og viðureignin góð skemmtun fyrir stuðningsmenn liðsins.


Andrea var næst markahæst leikmanna Blomberg-Lippe með sjö mörk. Einnig átti hún þrjár stoðsendingar, var með þrjú sköpuð færi og vann tvo leikmenn Thüringer HC af leikvelli í tvær mínútur. Andrea lét einnig til sín taka í vörninni með þeim afleiðingum að hún varð að kasta mæðinni á varamannabekknum í tvígang í tvær mínútur í hvort skipti.

Díana Dögg skoraði tvö mörk, gaf fimm stoðsendingar og skapað auk þess eitt færi til viðbótar. Hún stal boltanum einu sinni og vann andstæðing einu sinni af leikvelli.

Elín Rósa skoraði einu sinni, átti tvær stoðsendingar, skapaði eitt færi og fiskaði eitt vítakast.

Landsliðskonurnar þrjár eru á leiðinni til Íslands til undirbúnings fyrir vináttuleik við Danmörku ytra á laugardaginn eftir viku.

Blomberg-Lippe hefur unnið þrjár fyrstu viðureignir sínar í þýsku 1. deildinni. Næsti leikur liðsins verður ekki fyrr en 4. október gegn BSV Sachsen Zwickau á útivelli.

Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -