Portúgalsmeistarar Sporting Lissabon, sem Orri Freyr Þorkelsson landsliðsmaður í handknattleik leikur með, vann pólska liðið Industria Kielce, 41:37, í annarri umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Leikið var í Lissabon.
Orri Freyr skoraði tvö mörk í þremur skotum og var einu sinni vikið af leikvelli. Salvador Salvador og Francisco Costa skoruðu 9 mörk hvor og voru markahæstir.
Sporting hefur farið vel af stað í keppninni og unnið báða leikina til þessa.
Szymon Sicko var markahæstur Kielce manna með átta mörk. Artsem Karalek var næstur með sex mörk.
Rólegt hjá Bjarka Má
Bjarki Már Elísson kom lítið við sögu í öruggum sigri One Veszprém á heimavelli, 30:25, gegn HBC Nantes. Eftir tap í Álaborg fyrir viku tóku leikmenn viðureignina í kvöld föstum tökum og voru með yfirhöndina frá upphafi til enda.
Vinstri hornamaðurinn Hugo Descat var markahæstur hjá Veszprém með átta mörk. Nedim Remili var næstur með sex mörk.
Noam Leopold var markahæstur hjá Nantes með fimm mörk.
Ágúst var með í Berlin
Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold tapaði fyrir þýsku meisturunum, Füchse Berlin, 31:28, í Max Schmeling Halle í Berlin. Á ýmsu hefur gengið hjá Berlínarliðinu síðustu vikur en það hefur ekki slegið leikmenn út af laginu í Meistaradeildinni sem hafa tvo vinninga.
Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður, er ennþá í herbúðum Aalborg Håndbold. Hann var þriðji markvörður liðsins í leiknum og kom við sögu í einu vítakasti en tókst ekki að verja það.
Mathias Gidsel var markahæstur hjá Füchse með átta mörk. Tim Freihöfer skoraði sjö sinnum.
Thomas Arnoldsen og Simon Hald skoruðu fimm mörk hvor fyrir Aalborg-liðið.