Jón Þórarinn Þorsteinsson markvörður FH átti annan stórleik í röð í kvöld þegar hann átti stóran þátt í sex marka sigri FH-inga á ÍBV, 36:30, í viðureign liðanna í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika. Þetta var fyrsta tap Eyjamanna í deildinni og um leið annar sigur FH í röð. Eru liðin þar með jöfn að stigum með fjögur hvort.
Jón Þorsteinn mætti í marki FH seint í fyrri hálfleik. Hann tók að verja allt hvað tók líkt og hann gerði fyrir viku gegn Val. Þegar leikurinn er gerður upp varði Selfyssingurinn 17 skot, þar af 2 vítaköst, 50% hlutfallsmarkvarsla.
Staðan var 19:14 að loknum fyrri hálfleik. FH-ingar léku við hvern sinn fingur framan af síðari hálfleik og náðu mest átta marka forskoti, 27:19.
Elís Þór Aðalsteinsson var bestur Eyjamanna. Hann skoraði 10 mörk og gekk einn best að finna leiðina framhjá Jóni Þórarni sem hefur mætt af krafti til leiks með FH eftir komuna frá Selfossi í sumar.
Mörk FH: Símon Michael Guðjónsson 8/3, Einar Örn Sindrason 6, Jón Bjarni Ólafsson 4, Ómar Darri Sigurgeirsson 4, Garðar Ingi Sindrason 4, Birgir Már Birgisson 3, Birkir Benediktsson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Brynjar Narfi Arndal 1, Ágúst Birgisson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 17/2, 50% – Daníel Freyr Andrésson 1, 8,3%.
Mörk ÍBV: Elís Þór Aðalsteinsson 10/3, Andri Erlingsson 5, Anton Frans Sigurðsson 3, Nökkvi Snær Óðinsson 2, Dagur Arnarsson 2/2, Jakob Ingi Stefánsson 2, Sveinn José Rivera 2, Ívar Bessi Viðarsson 1, Daníel Þór Ingason 1, Kristófer Ísak Bárðarson 1, Hinrik Hugi Heiðarsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 5, 14,7% – Morgan Goði Garner 3, 30%.