Benedikt Marinó Herdísarson tryggði Stjörnunni sigur á HK í uppgjöri liðanna sem voru stigalaus á botni Olísdeildar karla fyrir viðureignina í kvöld, 26:25. Leikið var í Hekluhöllinni í Garðabæ. Benedikt skoraði sigurmarkið nokkrum sekúndum fyrir leikslok. HK-ingar freistuðu þess að jafna en tíminn var ekki nægur til þess að tími væri til þess að bjarga því sem bjarga varð.
HK er þar með eitt neðst og stigalaust í Olísdeildinni þegar þremur umferðum er lokið. Stjarnan færðist upp í 10. sæti með stigin sín tvö, einu stigi fyrir ofan ÍR.
Stjörnumenn voru einu til tveimur mörkum yfir allan síðari hálfleikinn. Miklu munaði að Sigurður Dan Óskarsson markvörður liðsins varði afar vel. Segja má að varslan hafi skilið á milli liðanna þegar upp var staðið.
Mörk Stjörnunnar: Ísak Logi Einarsson 6, Gauti Gunnarsson 4/2, Jón Ásgeir Eyjólfsson 4, Jóhannes Bjørgvin 3, Benedikt Marinó Herdísarson 3, Pétur Árni Hauksson 2, Hans Jörgen Ólafsson 1, Starri Friðriksson 1, Loftur Ásmundsson 1, Barnabás Rea 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 17/1, 40,5%.
Mörk HK: Sigurður Jefferson Guarino 6, Haukur Ingi Hauksson 5, Ágúst Guðmundsson 4/2, Kristján Pétur Barðason 2, Leó Snær Pétursson 2, Hjörtur Ingi Halldórsson 2, Andri Þór Helgason 2/1, Styrmir Hugi Sigurðarson 1, Örn Alexandersson 1.
Varin skot: Róbert Örn Karlsson 10/3, 27,8%.