-Auglýsing-

Sveinur er nefbrotinn – úr leik í nokkrar vikur

- Auglýsing -

Færeyski handknattleiksmaðurinn Sveinur Ólafsson leikur ekki með Aftureldingu næstu vikurnar. Hann nefbrotnaði eftir um 20 mínútur í viðureign Aftureldingar og ÍR í Olísdeild karla í Skógarseli í kvöld. Einn leikmanna ÍR lenti í samstuði við Sveinur þar sem hinn síðarnefndi stóð í vörn Aftureldingar. Sveinur vann ruðning en lítil huggun var í því þegar í ljós kom að afleiðing samstuðsins var nefbrot.


Stefán Árnason þjálfari Aftureldingar staðfesti meiðsli Færeyingsins við handbolta.is eftir viðureignina. Sagðist hann reikna með að Sveinur verði frá keppni í a.m.k. fjórar til sex vikur.

Sveinur hefur komið mjög öflugur til leiks með Aftureldingarliðinu á tímabilinu eftir að hafa fengið fá tækifæri til þess að sanna sig á síðasta vetri.

Bætir gráu ofan á svart

Meiðsli Sveinurs bætir gráu ofan á svart á meiðslalista Aftureldingarliðsins. Eins og handbolti.is sagði frá fyrr í kvöld stendur markvörðurinn Einar Baldvin Baldvinsson ekki vaktina á næstunni vegna hnémeiðsla auk þess sem örvhenta skyttan færeyska, Hallur Arason, er meiddur á öxl. Óvissa ríkir um þátttöku Halls það sem eftir er ársins eins og handbolti.is sagði frá á sunnudaginn.

Afturelding fær Fram í heimsókn í Myntkaupshöllina að Varmá að viku liðinni. Meiðsli eru í herbúðum beggja félaga. Marel Baldvinsson tekur ekki þátt í fleiri leikjum Fram á keppnistímabilinu. Rúnar Kárason var ekki með Fram í kvöld gegn Haukum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -