Valur stendur vel að vígi eftir eins marks sigur á hollenska meistaraliðinu JuRo Unirek í fyrri viðureign liðanna í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildar kvenna í handknattleik í bænum ‘t Veld í Hollandi í dag, 31:30. Heimaliðið skoraði fjögur síðustu mörkin eftir að hafa saumað að Valsliðinu.
Síðari viðureignin verður í N1-höllinni á Hlíðarenda á sunnudaginn eftir viku. Sigurliðið í rimmunni mætir þýska liðinu Blomberg-Lippe í annarri umferð forkeppninnar í byrjun nóvember.
Leikmenn JuRo Unirek byrjuðu leikinn af miklum krafti í dag með þremur fyrstu mörkunum og fjórum af þeim fimm fyrstu. Valsliðið lét kröftuga byrjun hollensku meistaranna ekki slá sig út af laginu. Valur vann sig inn í leikinn og var marki undir í hálfleik, 16:15.
Framan af síðari hálfleik voru leikmenn JuRo unirek yfir. Valur náði afar góðum kafla um miðjan síðari hálfleik með þremur mörkum í röð. Arna Karítas Einarsdóttir jafnaði metin, 23:23, þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Í framhaldinu skoruðu Guðrún Hekla Traustadóttir og Auður Ester Gestsdóttir sitt markið hvor áður en heimliðinu tókst að svara fyrir sig. Eftir þetta var Valur með yfirhöndina, m.a. 31:26, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Á lokamínútunum tókst leikmönnum Juro Unirek að sauma að Valsliðinu.
Valur var án fjögurra leikmanna sem eru frá vegna meiðsla; Ásrún Inga Arnarsdóttir, Elísa Elíasdóttir, Mariam Eradze og Þórey Anna Ásgeirsdóttir auk þess sem Thea Imani Sturludóttir var lítið með í dag. Hún er að jafna sig af meiðslum, hægt og bítandi.
Mörk Vals: Lilja Ágústsdóttir 6, Lovísa Thompson 4, Guðrún Hekla Traustadóttir 3, Arna Karítas Eiríksdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1, Ágúst Rún Jónasdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 8/1, 21%.