„Þetta var baráttusigur hjá okkur. Við byrjuðum leikinn ekkert frábærlega og lentum undir, 4:1, og 11:7 um miðjan fyrri hálfleik. Við náðum hins vegar að koma okkur inn í leikinn og minnka niður í eitt mark fyrir hálfleik,“ sagði Anton Rúnarsson þjálfari Íslandsmeistara Vals við handbolta.is eftir eins marks sigur Vals, 31:30, á hollenska meistaraliðinu JuRo Unirek í fyrri viðureign liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar kvenna í handbolta í Hollandi í gær.
Síðari viðureignin fer fram í N1-höllinnni á Hlíðarenda á sunnudaginn eftir viku.
Komum til baka
„Ekki var um óskabyrjun að ræða en við gerðum vel að koma til baka í seinni hálfleik og náðum mest fimm marka forystu. Þær skoruðu hins vegar síðustu fjögur mörkin í leiknum,“ sagði Anton sem var ánægðari með síðari hálfleikinn hjá sínu liði.
Drögum lærdóm af leiknum
„Seinni hálfleikur var betri en fyrri. Við vorum hins vegar oft á tíðum sjálfum okkur verstar. Það komu hins vegar góðar varnir og sóknir í þessum leik en þær hefðu mátt vera fleiri. Við munum fara vel yfir þennan leik og mætum klár í slaginn á sunnudaginn á okkar heimavelli,“ sagði Anton Rúnarsson þjálfari Vals en hann var að renna upp að flugstöðinni á Schiphol-flugvelli við Amsterdam er handbolti.is var í sambandi við hann í morgun.