ÍBV skoraði fjögur síðustu mörkin í viðureign sinni í Olísdeild kvenna við Stjörnuna í Eyjum í dag og náði þar með í tvö mikilvæg stig, 31:27. Stjarnan hafði áður gert harða hríð að Eyjaliðinu og m.a. unnið upp fjögurra marka forskot og tvisvar komist marki yfir.
ÍBV hefur þar með fjögur stig eins og ÍR og Valur í öðru til fjórða sæti deildarinnar þar sem nýliðar KA/Þórs tróna á toppnum með sex stig.

ÍBV hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik en Stjarnan var aldrei langt undan. Aðeins var eins marks munur í hálfleik, 16:15.
Í upphafi síðari hálfleiks leit út fyrir að ÍBV ætlaði að síga framúr. Liðið náði nokkrum sinnum fjögurra marka forystu. Stjarnan var á öðru máli og skoraði fimm mörk í röð og komst yfir, 23:24 og aftur 25:26, þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Við tóku æsilegat mínútur allt þar til Eyjaliðinu tókst að hrista Stjörnuna af sér á síðustu þremur mínútunum.

Næst á miðvikudag
Bæði lið eiga leiki strax á miðvikudaginn. ÍBV fær Selfoss í heimsókn og Stjarnan tekur á móti Val í Hekluhöllinni. Leikjunum er flýtt vegna þátttöku Selfoss og Vals í Evrópukeppni um næstu helgi.
Mörk ÍBV: Alexandra Ósk Viktorsdóttir 7, Ásdís Halla Hjarðar 6, Birna Berg Haraldsdóttir 6, Amelía Dís Einarsdóttir 6, Sandra Erlingsdóttir 3/1, Birna Dís Sigurðardóttir 1, Britney Emilie Florianne Cots 1, Agnes Lilja Styrmisdóttir 1.
Varin skot: Amalia Frøland 14, 34,1% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 1/1, 100%.
Mörk Stjörnunnar: Natasja Hammer 8, Anna Lára Davíðsdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 4/2, Inga Maria Roysdottir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2, Aníta Björk Valgeirsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Bryndís Hulda Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 15/1, 32,6%.