Orri Freyr Þorkelsson og Ólafur Andrés Guðmundsson máttu gera sér að góðu jafntefli með liðum sínum Elverum og Montpellier í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld. Orri og félagar gerðu jafntefli við Vardar Skopje í Elverum, 27:27, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir skömmu fyrir leikslok.
Þetta var fyrsti leikur Orra Freys í Meistaradeild Evrópu á ferlinum en hann gekk til liðs við Elverum í sumar frá Haukum. Hann skoraði ekki mark í leiknum.
Ólafur Andrés er þrautreyndur leikmaður úr Meistaradeildinni en var að leika sinn fyrsta leik í keppninni fyrir franska liðið Montpellier á heimavelli í dag er það missti álitlega stöðu niður í jafntefli, 29:29, gegn ungverska liðinu Pick Szeged. Montpellier var þremur mörkum yfir þegar fjórar og hálf mínúta var til leiksloka, 29:26.
Þýska meistaraliðið THW Kiel vann góðan sigur á Meshkov Brest, 33:30, í Brest í Hvíta-Rússlandi. Svíinn Niclas Ekberg fór á kostum í liði Kiel og skoraði 11 mörk í 13 tilraunum.
Fjórði leikur dagsins í keppninni hefst í Zagreb í Króatíu síðar í kvöld þegar danska meistaraliðið Aalborg sækir PPD Zagreb heim. Aron Pálmarsson verður ekki með Álaborgarliðinu vegna meiðsla. Arnór Atlason aðstoðarþjálfari verður væntanlega á sínum stað við hliðarlínuna. Aalborg lék til úrslita í Meistardeildinni í vor.