- Auglýsing -
- Heimsmeistaramót félagsliða hefur staðið yfir í Kaíró í Egyptalandi síðan á föstudaginn. Þar reyna með sér þrjú öflug félagslið frá Evrópu, Evrópumeistarar SC Magdeburg, Barcelona og One Veszprém auk álfumeistara Suður- og Norður Ameríku, tvö lið frá Egyptalandi, Asíumeistarar félagsliða og ástralskt félagslið.
- Heimsmeistaramót félagsliða hefur verið haldið árlega um árabil og virðist sérstakt áhugamál forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Það er hrein raun fyrir áhugafólk um handbolta að fylgjast með mótinu vegna þess áhugaleysis sem fyrir því er.
- Mótahaldið er í umsjón Alþjóða handknattleikssambandsins sem m.a. leggur til 550 þúsund dollara í verðlaunafé auk þess að greiða ferðir og uppihald liðanna. Ljóst er að lítið fæst upp í útgjaldareikninginn með sölu aðgangseyris og sjónvarpsréttar.
- Árum saman var leikið í Katar áður en mótið var flutt til Sádi Arabíu. Eftir að snurða hljóp á þráðinn í samskiptum milli Sádi Araba og forseta IHF fékk forsetinn landa sína til þess að taka mótið að sér. Synd væri að segja að lifnað hafi yfir mótahaldinu eftir flutninginn til Egyptalands og var þó ekki úr háum söðli að falla í þeim efnum.
- Áhuginn fyrir mótinu í Egyptalandi er hverfandi lítill. Á bilinu 100 til 150 áhorfendur hafa verið á leikjunum, stundum færri, sjaldan fleiri þótt áhorfendatölur á leikskýrslum segi annað. Svo dauft er yfir sumum leikjunum að nánast má heyra leikmenn tala saman á varamannabekkjunum.
- Leikið er í nýrri keppnishöll sem öll er hin glæsilegasta, New Capital Hall, sem tekin var í notkun fyrir covid-heimsmeistaramótið 2021. Þegar fylgst er með leikjum mótsins er engu líkara en Covid standi enn yfir með öllum sínum samkomutakmörkunum. Reyndar er lítið um grímunotkun. Keppnishöllin rúmar a.m.k. 20 þúsund áhorfendur en sem fyrr segir eru áhorfendur oft ekki fleiri en 100 til 150.
- Leikmenn búa sem betur fer á góðu hóteli sem er eitt fárra húsa ásamt keppnishöllinni sem er tilbúið í hverfi sem kallað er New Capital city upp á ensku. Þar stendur til að í framtíðinni rísi ný miðborg Kaíró sem verði með tíð og tíma miðstöð viðskipta og stjórnsýslu. Þarna býr ennþá ekki nokkur maður. Annað hvort standa íbúðahús og blokkir auð eða að þau eru í byggingu. Tugir kílómetra eru frá þessari nýju miðborg og til hjarta Kaíró.
- Svo er að sjá af fréttum að fátt hafi breyst síðan neðanritaður var þarna á ferð í janúar 2021 þegar hluti af heimsmeistaramóti karla fór fram í keppnishöllinni og dvalið var á sama hóteli og keppnisliðin búa á þessa dagana í New Capital city. Borgarhlutinn var svo lítt þekktur á þeim tíma að sá sem ók með neðanritaðan og nokkra til viðbótar vissi ekkert um tíma hvar hann var né hvert skyldi stefna. Gat maður alveg eins átt von á að enda í norður í Alexandríu eftir allan aksturinn eins og í þessu nýja úthverfi Kaíró.
HM: Í óvissuferð í Kaíró með Geir og Grana
- Velta má fyrir sér hver er tilgangurinn sé með þessari keppni. Ekki laðar hún að áhorfendur og eykur þar með áhuga handbolta eins komið er málum. Ekki fást inn tekjur að einhverju marki með nokkuð hundruð áhorfendum og ókeypis streymi frá leikjum á youtube.
- Heimsmeistaramót félagsliða er tímaskekkja og dýrt áhugamál IHF sem skilur lítið eftir sig. Ekki síst í ljósi þess að áhuginn fyrir mótinu hefur þverrað frekar en vaxið með árunum. Held ég að IHF væri nær að setja peningana sem fara í mótahaldið, sennilega hátt í eina milljón dollara, í markvissara útbreiðslustarf en þetta dæmalausa heimsmeistaramót félagsliða ár eftir ár.
Ívar Benediktsson, [email protected]
- Auglýsing -