Kátt var á hjalla í Ringsted-höllinni á Sjálandi í kvöld þegar heimaliðið TMS Ringsted vann sér sæti í átta liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í handknattleik. TMS Ringsted, með Guðmund Braga Ástþórsson og Ísak Gústafsson í burðarhlutverkum, lagði Skjern, 32:27, í hörkuleik. Heimamenn voru fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:12.
Guðmundur Bragi skoraði fjögur mörk og átti tvær stoðsendingar. Ísak skoraði þrjú mörk og gaf einnig tvær stoðsendingar sem komu að gagni. Rasmuss Graffe var markahæstur með sjö mörk.
Skjern-liðið hefur ekki verið sannfærandi það sem af er leiktíð. Jon Lindenchrone skoraði 11 mörk fyrir liðið en aðrir voru ekki eins öflugir. Danski landsliðsmaðurinn Mads Mensah skoraði til að mynda aðeins eitt mark.
Elvar og félagar eru úr leik
Ribe-Esbjerg, sem Elvar Ásgeirsson leikur með, féll úr leik í bikarkeppninni í kvöld. Liðið tapaði á heimavelli fyrir Bjerringbro/Silkeborg, 37:29. Elvar skoraði fjögur mörk og átti eina stoðsendingu og var einna bestur.
Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður, er ennþá á leigusamningi hjá meisturum Aalborg Håndbold og var þar af leiðandi skiljanlega ekki með Ribe-Esbjerg.