„Það var fyrst og fremst ólýsanlegt að komast inn á völlinn aftur,“ segir handknattleiksmaðurinn Darri Aronsson hjá Haukum þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið. Eftir þriggja ára þrautargöngu lék Darri loksins handbolta á ný þegar hann með Haukum mætti Fram í 4. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í síðustu viku.
Þriggja ára vinna
„Að baki eru rúm þrjú ár af stanslausri vinnu við að komast aftur út á völlinn. Æfingar og aftur æfingar auk rannsókna hjá Ella [Dr. Elís Þór Rafnsson sjúkraþjálfari] því það þurfti svo sannarlega að fara ótroðnar slóðir í leit að svörum við þeirri spurningu hvað væri að. Horft til baka er það mikill léttir að mæta til leiks á ný,“ segir Darri sem svo sannarlega hefur fengið að reyna á þolrifin.
Þegar Elli gaf grænt ljós
„Maður vissi svo sem ekki við hverju mætti búast þegar ég mætti í fyrsta leikinn í rúm þrjú ár. Maður varð bara að gera sitt besta og vona það besta. Ég hafði æft í nokkrar vikur með Haukum svo ég var alveg búinn að láta á mig reyna. Auk þess þá hafði Elli gefið mér grænt ljós, úr því að hann treysti mér þá vissi ég að allt væri í lagi,“ sagði Darri.
Þetta átti að taka ár en því miður var það lengra og teygðist upp á þriðja ár

Draumur rættist en breyttist fljótt
Upphaf málsins er að eftir að Darri hafði gert það gott með Haukum og auk þess fengið tækifæri með A-landsliðinu þá rættist draumur með samningi við franska liðið US Ivry vorið 2022. Nokkrum dögum fyrir brottför til Parísar, þá um sumarið, ristarbrotnaði Darri. Lengri tíma en vonir stóðu til tók að fá brotið fullgróið. Þegar því loksins var lokið tók annað og verra við. Darri meiddist illa á æfingu hjá US Ivry í febrúar 2023. Annað hnéið fór illa og hnéskeljarsinin slitnaði. „Þetta átti að taka ár en því miður var það lengra og teygðist upp á þriðja ár,“ segir Darri.
Við tók þyrnum stráð leið með fjórum aðgerðum og endalausri, að því er virtist, endurhæfingu og bakslögum.
Meiðslin voru bara alltaf að breytast og Elli þurfti að leggjast í miklar rannsóknir meðal annars vegna vöðvaójafnvægis og örvefsmyndunar
Alltaf að breytast
„Meiðslin voru bara alltaf að breytast og Elli þurfti að leggjast í miklar rannsóknir meðal annars vegna vöðvaójafnvægis og örvefsmyndunar í upphafi endurhæfingarinnar eftir aðgerðina úti í febrúar 2022 og fleiri aðgerða og klúðurs. Þetta gerði að verkum að flóknara var að vinna bug á vandanum sem aftur leiddi til að erfitt var að greina hvað var að, og þar af leiðandi að komast að rót vandans og hitta á réttu meðferðina. Óvissan var svo erfið,“ segir Darri.

Inn á beinu brautina hjá Ella
„Ein ástæðan fyrir því að ég var svona lengi frá var sú að það voru ekki teknar rétt ákvarðanir hvenær ég mætti byrja að æfa. En eftir að ég komast alfarið í hendurnar á Ella komumst við inn á beinu brautina. Þegar hann var viss um að ég gæti byrjað að æfa og síðan að spila þá var ljóst að ég væri kominn á græna grein,“ sagði Darri sem var aðeins byrjaður að æfa aftur með US Ivry í vor áður en samningur hans við félagið rann út eftir þrjú ár.
Síðustu vikur hafa framfarir verið miklar og líkaminn brugðist mjög vel við. Ennþá er mikil vinna eftir

Studdi mig frá upphafi
Þegar upp var staðið lék Darri ekki einn leik fyrir US Ivry. Hann ber forsvarsmönnum félagsins og samherjum sínum góða söguna. Allir hafi stutt hann með ráðum og dáð. „Það er bara verst að hafa ekki náð að leika einn leik fyrir félagið eftir allan þennan tíma.“
Ennþá mikil vinna eftir
Eftir þrotlausa vinna og vangaveltur er útlitið gott þótt enn standi mikil vinna fyrir dyrum. „Síðustu vikur hafa framfarir verið miklar og líkaminn brugðist mjög vel við. Ennþá er mikil vinna eftir en það er frábært að ég geti verið með og hjálpað liðinu.“
Mánuðir líða í óvissu og maður veit ekki hvort maður muni einhvern tímann getað hlaupið aftur þá koma upp hugsanir hvort maður eigi gefa boltann upp á bátinn
Alltaf ljós við enda gangnanna
Darri segir að það sé alltaf ljós fyrir enda gangnanna þótt hann hann hafi átt erfitt með að koma auga á það, um tíma. „Það er rosalega gaman að hafa náð því að koma til baka en vinnan hefur verið rosalega mikil.“

Mánuðir liðu í óvissu
Darri viðurkennir að stundum hafi flogið upp í kollinn á sér að láta gott heita. „Þegar læknar segja við mann mánuð eftir mánuð að þeir viti ekki hvað sé að, af hverju ég nái ekki fullri heilsu og styrk í hnénu. Svo þegar við bætist eitthvað nýtt sem engin skýring er á. Mánuðir líða í óvissu og maður veit ekki hvort maður muni einhvern tímann getað hlaupið aftur þá koma upp hugsanir hvort maður eigi gefa boltann upp á bátinn.“
Ofan á þrjóskuna er ég heppinn af hafa bak við mig sterka fjölskyldu og rosalega góða konu, Kolbrúnu Evu Aradóttur, sem hefur staðið þétt við bakið á mér frá fyrsta degi
Kostur að vera þrjóskur
„Það er hinsvegar kostur minn að vera þrjóskur og þess vegna hélt ég áfram. Auk þess þá þykir mér bara svo ógeðslega gaman í handbolta og finnst ég eiga nóg eftir. Þar af leiðandi vildi ég ekki gefast upp.
Heppinn með fjölskyldu
Ofan á þrjóskuna er ég heppinn að hafa á bak við mig sterka fjölskyldu og rosalega góða konu, Kolbrúnu Evu Aradóttur, sem hefur staðið þétt við bakið á mér frá fyrsta degi.
Án Kolbrúnar Evu, fjölskyldunnar og Ella sjúkraþjálfara þá stæði ég ekki í þessum sporum í dag,“ segir Darri Aronsson handknattleiksmaður hjá Haukum og nemi í sálfræði í samtali við handbolta.is.