Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði sjö mörk og var markahæstur hjá IFK Kristianstad í öruggum sigri á VästeråsIrsta HF, 35:25, í Västerås í gærkvöld þegar liðin mættust í fjórðu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar. Einar Bragi átti 12 markskot.
IFK Kristianstad er í öðru sæti deildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki og er þremur stigum á eftir Malmö sem trónir á toppnum. Malmö hefur leikið einum leik fleira.
Arnór lét til sín taka
Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson lék afar vel með HF Karlskrona í gærkvöld þegar liðið vann OV Helsingborg, 34:28, á heimavelli. Arnór og félagar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12.
Arnór skoraði fimm mörk í sex skotum og var einnig umsvifamikill í vörninni.
HF Karlskrona er komið upp í fjórða sæti deildarinnar með sex stig í fimm leikjum.
Illa gengur hjá Birgi Steini
Birgir Steinn Jónsson og samherjar í IK Sävehof náðu ekki að verða fyrsta liðið til þess að vinna Malmö í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni þegar liðin mættust í Malmö í gær. HK Malmö vann með fimm marka mun, 37:32.
Birgir Steinn skoraði eitt mark í þremur tilraunum.
Mörg mörk voru skoruð í fyrri hálfleik í Malmö. Heimamenn voru átta mörkum yfir að honum loknum, 24:16.
IK Sävehof er í slæmri stöðu í 11. sæti af 14 liðum með þrjú stig eftir fimm leiki. Malmö er efst með 10 stig.
Naumt tap hjá Bertu Rut
Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark fyrir Kristianstad í eins marks tapi liðsins fyrir VästeråsIrsta HF, 25:24, í Västerås í gær. Kristianstad hefur eitt stig að loknum tveimur fyrstu umferðum sænsku úrvalsdeildarinnar.
Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.