Sigurganga Íslendingaliðsins HSG Blomberg-Lippe í þýsku 1. deildinni í handknattleik heldur áfram. Í kvöld vann HSG Blomberg-Lippe liðsmenn BSV Sachsen Zwickau, 35:29, í Zwickau eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik. Íslensku landsliðskonurnar létu til sína taka að vanda.
Andrea Jacobsen varð markahæst hjá Blomberg-Lippe ásamt Nieke Kühne með sex mörk. Andrea átti einnig fjórar stoðsendingar og þrjú sköpuð færi en hún hefur verið afar öflug í upphafsleikjum tímabilsins.
Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði tvö mörk, vann eitt vítakast og var með fjórar stoðsendingar og þrjú sköpuð færi eins og Andrea.
Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði tvö mörk og fiskaði eitt vítakast.
Mætast á miðvikudag
Blomberg-Lippe er efst í þýsku 1. deildinni með átta stig eins og Bensheim-Auerbach. Liðin tvö eru þau einu sem ekki hafa tapað leik til þessa. Liðin tvö mætast á heimavelli Blomberg-Lippe á miðvikudagskvöld í upphafsleik 5. umferðar.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.