Ómar Ingi Magnússon átti stórleik í dag og skoraði helming marka SC Magdeburg í naumum sigri á HSV Hamburg, 30:29, í viðureign liðanna í Hamborg í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Ómar Ingi skoraði átta af mörkunum 15 úr vítaköstum. Hann geigaði aðeins á þremur skotum í leiknum.
Einnig átti Ómar Ingi tvær stoðsendingar.
Þetta er í annað sinn á keppnistímabilinu sem Ómar Ingi skorar 15 mörk í leik í þýsku 1. deildinni.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Elvar Örn Jónsson tók mest þátt í varnarleiknum og var einu sinni vikið af leikvelli.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir HSV Hamburg sem veitti Magdeburg harða keppni.
Gummersbach tapaði í Eisenach
Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðsson töpuðu fyrir Eisenach á útivelli í dag, 32:29, eftir að hafa unnið fimm af fyrstu sex viðureignum sínum í deildinni fram til þessa.
Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach en Teitur Örn Einarsson ekkert.
Jafntefli í hafnarborginni
Haukur Þrastarson og liðsfélagar í Rhein Neckar Löwen náðu jafntefli við THW Kiel í hafnarborginni í dag, 31:31. Það er svo sannarlega ekki á hverjum degi sem Kiel tapar stigi á heimavelli. Tölfræði leiksins er hinsvegar í lamasessi og ekki ljóst hvað Haukur gerði.
Staðan í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla: