Sérfræðingar Handboltahallarinnar, Ásbjörn Friðriksson og Einar Ingi Hrafnsson, fóru yfir dæmalausan lokakafla í viðureign Þórs og Stjörnunnar í 5. umferð Olísdeildar karla í Íþróttahöllinni á Akureyri. Stjarnan missti niður tveggja marka forskot á síðustu mínútunum og var síðan með of marga leikmenn inni á vellinum eftir leikhlé sem liðið tók þegar rétt innan við mínúta var eftir.
Tókst ekki að nýta liðsmuninn
Fyrir vikið var Þór manni fleiri síðustu mínútuna en tókst ekki færa sér liðsmuninn í nyt. „Þórsarar fara í sókn, manni fleiri en það var algjört úrræðaleysi sem endaði á einhverri þvælu línusendingu hjá Igori,“ sagði Hörður Magnússon umsjónarmaður Handboltahallarinnar.
Hvar var Kári Kristján?
„Þetta var annar leikurinn í röð sem Igor fer með lokasókn fyrir Þór til þess að fá meira út úr leiknum,“ sagði Einar Ingi sem setur spurningamerki við af hverju Kári Kristján Kristjánsson var ekki sendur inn á völlinn með alla sína reynslu í síðustu sókn Þórsara.
Sjá myndskeið Handboltahallarinnar hér fyrir ofan þar sem farið er ítarlega yfir viðureign Þórs og Stjörnunnar.
Stjarnan sækir Selfoss heim kl. 18 í kvöld á sama tíma og Þór mætir FH í Kaplakrika klukkan 18.30 í sjöttu umferð Olísdeildar karla.