Ekkert varð af leik ÍBV og Hauka í Olísdeild karla í handknattleik sem fram átti að fara í kvöld. Viðureigninni var frestað vegna þess að ferð Herjólfs frá Landeyjarhöfn klukkan 15.45 í var slegin af vegna lélegra hafnarskilyrða. Haukar áttu bókað far með Herjólfi í þessari tilteknu ferð.
Þess verður freistað að liðin leiði saman kappa sína á sunnudaginn klukkan 16. Ekki var mögulegt að koma leiknum fyrir á morgun vegna þess að aðalsalur íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum verður í útleigu allan daginn á morgun.
„Í vinnureglum mótanefdar er leitast við að spila leikinn þá næsta lausan dag sem er laugardagur, en ÍBV handbolti hefur ekki tök á því vegna þess að aðalsalur félagsins er í útleigu allan daginn.
Því hefur mótanefnd ákveðið að leikur ÍBV og Hauka í Olís deild karla verði 16:00 sunnudaginn 12.okt,“ segir í tilkynningu frá mótanefnd HSÍ eftir hádegið í dag.