KA heldur áfram að gera það gott í Olísdeild karla í handknattleik. Í kvöld vann Akureyrarliðið Íslands- og bikarmeistara Fram í sjöttu umferð deildarinnar og það í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal, 32:28. Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti enn einn stórleikinn fyrir KA á leiktíðinni. Hann skoraði 12 mörk í 15 skotum auk þess að skapa sex marktækifæri. Framarar réðu ekkert við piltinn.
Bjarni Ófeigur er þar með afgerandi markahæstur í Olísdeildinni með 55 mörk í sex leikjum. Hann hefur skoraði níu mörkum meira en Selfyssingurinn Hannes Höskuldsson samkvæmt samantekt tölfræðiveitunnar HBStatz.
KA er komið í hóp með Val og Haukum í annað til fjórða sæti deildarinnar með átta stig eftir sex fyrstu leikina. Haukar eiga að vísu leik til góða við ÍBV sem vonir standa til að geti farið fram á sunnudaginn. Fram er hinsvegar í níunda til ellefta sæti með fjögur stig.
KA-menn voru með tögl og hagldir í viðureigninni í Lambhagahöllinni frá upphafi til enda gegn vængbrotnu liði Fram sem varð fyrir áfalli fyrr í vikunni er Dánjal Ragnarsson bættist á sjúkralistann.
Að loknum fyrri hálfleik var KA með sex marka forskot, 19:13.
Mörk Fram: Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 5, Rúnar Kárason 5, Erlendur Guðmundsson 4, Eiður Rafn Valsson 3, Max Emil Stenlund 2, Arnþór Sævarsson 2, Theodór Sigurðsson 2/1, Dagur Fannar Möller 2, Arnar Snær Magnússon 1, Kjartan Þór Júlíusson 1, Lúðvík Thorberg B Arnkelsson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 10, 32,3% – Breki Hrafn Árnason 1, 8,3%.
Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 12/2, Einar Birgir Stefánsson 5, Morten Linder 4, Magnús Dagur Jónatansson 4, Logi Gautason 3, Jens Bragi Bergþórsson 3, Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 1.
Varin skot: Bruno Bernat 14/1, 33,3%.