Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði fyrir færeyska landsliðinu í fyrstu umferð undankeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik í Lambhagahöllinni í kvöld, 24:22. Þetta er fyrsta tap íslensks A-landsliðs í handknattleik fyrir Færeyingum í mótsleik. Færeyingar voru öflugri frá upphafi til enda. Sóknarleikur, þá sérstaklega nýting á færum var afar slök hjá íslenska landsliðinu og kom því í koll frá byrjun til enda. Staðan í hálfleik var 11:11.
Næsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn portúgalska landsliðinu ytra á sunnudaginn klukkan 16.
Fyrsti stundarfjórðunginn gekk hvorki né rak í sóknarleik íslenska liðsins. Framan af var leikurinn hægur en þegar á leið sköpuðust afar góð marktækifæri sem ekki tókst að nýta. Þegar Arnar Pétursson landsliðsþjálfari tók leikhlé eftir liðlega 15 mínútur hafði íslenska liðið aðeins skoraði þrjú mörk, staðan var 7:3, Færeyingum í vil.
Fjögur mörk í röð á hálfri þriðju mínútu eftir leikhléið og staðan var orðin jöfn, 7:7.
Þremur mínútum fyrir lok fyrri hálfleik komst Ísland yfir í fyrsta sinn með öðru marki Elínar Klöru Þorkelsdóttur í röð, 11:10.


Hafdís Renötudóttir markvörður var besti leikmaður íslenska landsliðsins í leiknum. Ljósmyndir/Hafliði Breiðfjörð
Hafdís Renötudóttir átti stórleik í fyrri hálfleik í markinu og hélt íslenska liðinu inni í leiknum þegar verst gekk. Hún varð 10 skot, tæplega 50% auk þess að vera hársbreidd frá því að skora á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks og koma Íslandi yfir á nýjan leik.
Staðan var jöfn í hálfleik, 11:11.
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri hjá íslenska liðinu með handbakargangi í sóknarleiknum. Íslenska liðið skoraði aðeins þrjú mörk á fyrstu 10 mínútunum, þar af tvö á tveimur mínútum. Áfram hélt Hafdís markvörður íslenska liðinu inni í leiknum og aftur náði íslenska liðið að komast inn í leikinn og ná yfirhöndinni í fyrsta sinn í hálfleik, 17:16, þegar 16 mínútur voru til leiksloka. Færeyska liðið svaraði að bragði með fimm mörkum í röð, 21:17. Segja má að eftir þar með hafi möguleikarnir á sigri gengið íslenska liðinu alveg úr greipum.

Áfram var sóknarleikurinn Akkilesarhæll íslenska landsliðsins og þá ekki síst nýtingin á marktækifærum. Sú staðreynd varð íslenska liðinu fyrst og fremst að falli þegar upp var staðið.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Katrín Tinna Jensdóttir 4, Sandra Erlingsdóttir 3/3, Elína Rósa Magnúsdóttir 2, Dana Björg Guðmundsdóttir 2, Andrea Jacobsen 1, Díana Dögg Magnúsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15/1, 38,4%.
Mörk Færeyja: Jana Mittún 7, Pernille Brandenborg 6, Súna Krossteig Hansen 4, Rannvá Olsen 2, Liv Bentsdóttir Zachariasen 1, Maria Pálsdóttir Nólsoy 1, Liv Sveinbjørnsdóttir Poulsen 1, Anna Elisabeth Halsdóttir Weyhe 1/1, Maria Halsdottir Weyhe 1/1.
Varin skot: Rakul Wardum 6, 29% – Gylta Djurhuus á Neystabø 3, 30%.
Undankeppni EM kvenna ”26: Úrslit leikja